Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti Völsungi frá Húsavík í 19. umferð Íslandsmótsins á Ólafsfjarðarvelli, föstudaginn 25. ágúst. Eftir þennan leik eru aðeins þrír leikir og 9 stig eftir í pottinum. Bæði liðin voru rétt fyrir ofan fallsvæðið fyrir þennan leik og því um algjöran sex stiga leik eins og oft er sagt. Völsungur var þremur stigum fyrir ofan KF fyrir þennan leik en með talsvert betri markatölu.

Það eru ChitoCare Beauty og Siglufjarðar apótek sem eru aðalstyrktaraðilar að allri umfjöllun um KF í sumar.

Upphitun: 

KF gat með sigri komist sex stigum frá fallsæti en Sindri sem er þremur stigum neðar í fallsæti leikur við Víking Ólafsvík í þessari umferð. Tapi Sindri þeim leik þá eru KF strákarnir í töluvert betri málum en fyrir nokkrum umferðum síðan. KF var með tvo sigra og eitt jafntefli í síðustu 5 leikjum og hafa sótt dýrmæt stig undanfarið.

Völsungur hefur ekki náð sér á strik í sumar og verið í neðri part deildarinnar eftir ágætis árangur í deildinni undanfarin ár. Liðið hafði tapað 10 leikjum af 18 fyrir þennan leik en unnið 7 leiki. Völsungur hafði unnið tvö síðustu leiki í deildinni og þrjá af síðustu fimm leikjum.

KF var með sitt sterkasta byrjunarlið í þessum leik og gat nú þjálfari liðsins verið á bekknum og stýrt sínum mönnum eftir afleysingu í markinu undanfarið.

Völsungur er með næst markahæsta leikmann deildarinnar í sínu liði, en það er Sigurður Hrannar Þorsteinsson, en hann er með 11 mörk í 17 leikjum. Völsungur gáfu það út fyrir leikinn að þeir vildu hefna fyrir tap gegn KF á sínum heimavelli í fyrri umferðinni í sumar. Með sigri gátu þeir fjarlægst fallbaráttuna enn frekar

Umfjöllun:

KF liðið byrjaði fyrri hálfleik vel. Liðið skoraði fyrsta mark leiksins og gaf það tóninn. Marinó Snær Birgisson skoraði markið á 22. mínútu og var það þriðja markið hans í deildinni í sumar.

Gestirnir frá Húsavík svöruðu eftir aðeins 5 mínútur og var það reynslumesti leikmaður vallarins, Pálmi Rafn Pálmason sem gerði markið, en hann verður 40 ára á næsta ári. Hann byrjaði ferilinn á Húsavík en fór svo til KA, Vals og spilaði með KR þar til á síðasta tímabili.

KF strákarnir svöruðu þessi marki mjög fljótt en það var Akil De Freitas sem skoraði á 29. mínútu, hans fjórða mark í 14 leikjum í sumar. Staðan orðin 2-1 og þannig var staðan í hálfleik.

Hvorugt lið gerði breytingu í hálfleik og börðust leikmenn KF áfram vel og lokuðu svæðum. Það var hann Sito sem skoraði svo þriðja markið hjá KF á 61. mínútu, hans fimmta mark í 8 leikjum í sumar. Frábær innkoma hjá honum eftir að hann kom til liðsins. Tæpur hálftími eftir og KF komið í góða stöðu.

Akil fékk gult spjald á 65. mínútu hjá KF og fékk skiptingu á 68. mínútu þegar Dagbjartur Búi kom inná í hans stað.

Völsungur henti í tvöfalda skiptingu á 75. mínútu og á sama tíma fór Vitor útaf fyrir Daniel Kristiansen hjá KF.

Þá kom Rúnar Freyr Egilsson inná hjá KF fyrir Aron Elí og Sito fékk skiptingu fyrir Jón Frímann.

Gestirnir löguðu stöðuna á fjórðu mínútu í uppbótartíma í 3-2, en markið kom of seint og KF landaði gríðarlega mikilvægum sigri í botnbaráttunni.

KF leikur næst við Víking í Ólafsvík 2. september. Síðasti heimaleikur liðsins verður í næstsíðustu umferðinni gegn KFG 9. september.

Sex stig á móti Völsungi í sumar og KF ætlar enda mótið á jákvæðu nótunum.

 

Það eru tveir frábærir styrktaraðilar sem gera okkur kleyft að halda úti öflugri íþróttaumfjöllun í Fjallabyggð og styðja nú við umfjöllun um alla leik KF í deild og bikar í sumar.

Takk Siglufjarðar Apótek og ChitoCare beauty.