Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti Ungmennafélaginu Sindra frá Hornafirði á Ólafsfjarðarvelli í 2. umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu karla. Það eru ChitoCare Beauty og Siglufjarðar apótek sem eru aðalstyrktaraðilar að allri umfjöllun um KF í sumar. Sérstök upphitun var fyrir leikinn í gær með þessari frétt.

Sindri vann 3. deildinna síðasta sumar og eru því nýliðar í 2. deildinni í ár. Þeir gerðu jafntefli við ÍR í fyrstu umferð Íslandsmótsins. Sindri heldur úti karla og kvennaflokkum allt upp í meistaraflokk og hafa sérstakan styrktarþjálfara innan félagsins.

KF byrjaði Íslandsmótið brösulega á erfiðum útivelli KFA í 1. umferðinni og töpuðu stórt 6-1 þar.  Heimavöllurinn er hinsvegar sterkt vígi og vonuðust stuðnings menn eftir sigri í fyrsta heimaleik liðsins á Íslandsmótinu. Liðið hefur hinsvegar misst markahæsta leikmann liðsins síðustu tvö árin en alltaf hefur einhver nýr komið inn og tekið við keflinu.

KF stillti upp sterku liði en þó vantaði nokkra öfluga menn en Jordan Damachoua virðist hafa meiðst í upphitun en hann var upphaflega á leikskýrslu, en Marinó Snær Birgisson kom í hans stað. Einnig vantaði Sævar Þór Fylkisson og Hákon Hilmarsson, en eru þeir báðir að glíma við meiðsli. Grétar Áki var kominn í byrjunarliðið og með fyrirliðabandið eftir að hafa byrjað á varamannabekknum í síðasta leik. Vitor Thoms byrjaði á bekknum hjá KF en hann er nýkominn aftur til liðsins og bíða menn spenntir eftir að sjá hann í deildinni.

Umfjöllun:

KF lék vel í fyrri hálfleik og braut Ljubomir Delic ísinn á 36. mínútu með góðu marki. Hans þrítugasta mark fyrir KF í 135 leikjum í deild og bikar.

Aðeins nokkrum mínútum síðar skoraði Akil De Freitas sitt fyrsta mark fyrir KF og kom heimamönnum í góða stöðu rétt fyrir leikhlé. Staðan orðin 2-0 fyrir KF og útlitið gott.

Akil De Freitast fékk svo skiptingu á 53. mínútu, en Rúnar Freyr Egilsson kom inná í hans stað fyrir KF.

Gestirnir sóttu í sig veðrið í síðari hálfleik og þegar rúmar tuttugu mínútur voru eftir að leiknum minnkaði Sindri muninn í 2-1 og settu spennu í leikinn. KF gerði aftur breytingu en á 76. mínútu kom Vitor Thomas inná fyrir Marinó Snæ Birgisson.

Sindri skoraði svo tvö mörk með stuttu millibili þegar um 5 mínútur voru eftir af leiknum og komust yfir 2-3 þegar aðeins nokkrar mínútur voru eftir af leiknum.

Mikill viðsnúningur í leiknum og KF missti niður góða forystu. Gestirnir héldu út og sóttu þrjú stigin en KF er enn án stiga eftir tvo tapleiki í röð. Lokatölur 2-3 í þessum leik.

Ekki úrslitin sem lagt aðdáendur vildu sjá en það er aðeins vika í næsta deildarleik þegar ÍR kemur í heimsókn til Ólafsfjarðar. Sá leikur er settur laugardaginn 20. maí kl. 16:00.