Siglufjarðar Apótek er aðalstyrktaraðili umfjallana um meistaraflokk KF í sumar eins og undanfarin ár. Á heimasíðu Siglufjarðar Apóteks getur þú pantað lyf og keypt vítamín og bætiefni, hjúkrunarvörur og snyrtivörur.

Upphitun: 

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti Selfossi í 7. umferð Íslandsmótsins í 2. deild karla í knattspyrnu á Ólafsfjarðarvelli. Selfoss var ósigrað í fyrstu sex leikjum mótsins en KF var á botninum og gat komist úr því sæti með sigri í leiknum. Ólafsfjarðarvöllur hefur oft verið grænni, en hann er nánast litlaus og graslaus þessar vikurnar eftir erfiðan vetur og vor. Helst er að finna grænt gras á markmannsteignum Vallarhúsmegin á velllinum. Aðstæður lagast vonandi á næstu fjórum vikum. Jordan Damachoua var kominn á miðjuna og Sævar Þór Fylkisson í sóknina. Ljubomir Delic var fyrirliði liðsins en Grétar Áki var á bekknum sem liðstjóri á líklega við meiðsli að stríða.

Þjálfari Selfoss er hinn reynslumikli Bjarni Jóhannsson og honum til aðstoðar er fyrrum atvinnumaðurinn Heiðar Helguson.

Umfjöllun:

KF byrjaði leikinn vel og pressuðu hátt og voru þéttir. Selfossi spilaði agaðan varnarleik og gáfu ekki mörg færi á sér í fyrri hálfleik. KF skapaði oft hættu þegar þeir fengu hornspyrnur og voru þær nokkrar í þessum leik. KF reyndi helst að leika upp miðjuna eða senda bolta innfyrir vörn Selfoss.

Staðan var 0-0 í hálfleik.

Gestirnir komu mjög sprækir til leiks eftir hlé og hefur Bjarni þjálfari líklega messað yfir þeim. Selfoss skoraði á fyrstu mínútum seinni hálfleiks og annað mark nokkrum mínútum síðar. Síðara markið kom eftir sendingu af hægri kanti en þar voru tveir sóknarmenn Selfoss lausir og engin að dekka þá. Staðan orðin 0-2 fyrir gestina.  KF gerði svo þrefalda skiptingu um miðjan síðari hálfleik og skömmu eftir skiptinguna fékk Selfoss vítaspyrnu, þegar varnarmaður KF braut af sér eftir tæklingu. Javon Sample skutlaði sér í rangt horn og staðan orðin 0-3.

KF reyndi að sækja á þá til leiksloka en Selfoss gaf á sér fá færi og beittu hröðum skyndisóknum sem skapaði oft mikla hættu. Javon markmaður KF bjargaði vel úr einni slíkri þegar Selfoss hefði geta komist í 4-0. En það var KF sem náði einu sárabótarmarki á 90. mínútu og var staðan orðin 1-3 og enn örfáar mínútur eftir. Það var Anton Karl Sindrason sem gerði mark KF, en þetta var hans fyrst mark fyrir félagið eftir tvo leiki.

Fleiri mörk voru ekki skoruð og fór Selfoss með þrjú stigin heim, þrátt fyrir ágætis leik að hálfu KF.

Siglufjarðar apótek er aðalstyrktaraðili umfjallana um alla leiki KF í deild og bikar í sumar.

Takk Siglufjarðar Apótek