KF og KFA mættust í Lengjubikarnum í dag í Fjarðarbyggðahöllinni á Reyðarfirði. Bæði lið voru án sigurs í riðlinum fyrir þennan leik en KFA hafði gert eitt jafntefli.

KF mætti með ungan hóp og þunnskipaðan í þetta verkefni. Þjálfarinn Daniel Kristiansen var mættur aftur í byrjunarliðið og einnig Joardan Damachoua og munar um minna. Formaðurinn Örn Elí Gunnlaugsson var einnig í byrjunarliðinu og virðist hann hafa tekið fram takkaskóna og hjálpar nú liðinu þegar fáir leikmenn eru til taks.

Elís Beck Kristófersson var í byrjunarliði meistaraflokks KF í fyrsta sinn, en hann er fæddur árið 2010 og var yngsti leikmaður liðsins. Hann hafði áður komið inná sem varamaður í síðasta leik en hann leikur einnig með 3. flokki KF.

Hafþór Máni Baldursson lék einnig sinn fyrsta leik fyrir KF, en hann er fæddur árið 2000 og samkvæmt vef KSÍ þá eru ekki upplýsingar um neina knattspyrnuleiki hjá honum, en þetta var allavega hans fyrsti leikur fyrir KF, eftir því sem næst verður komist.

Heimamenn byrjuðu leikinn ágætlega og komu inn marki rétt fyrir lok fyrri hálfleiks. Staðan var 1-0 fyrir heimamenn þegar dómarinn flautaði til hlés.

KF var aðeins með þrjá varamenn í þetta verkefni, og fengu þeir allir að spreyta sig í síðari hálfleik.

KFA gerði svo annað mark á 76. mínútu þegar einn af þeirra ungu leikmönnum skoraði. Staðan 2-0 og skammt eftir.

Fleiri mörk voru ekki skoruð og er KF enn án sigurs í Lengjubikarnum.

KF mætir næst Dalvík/Reyni miðvikudaginn 2. mars á Dalvíkurvelli og er lokaleikurinn gegn Magna 16. mars.