Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti KA-2 á Kjarnafæðismótinu í dag. Leikurinn fór fram í Boganum á Akureyri. KA-2 er 2.flokkur KA og strákar fæddir frá árunum 2003-2007. Þjálfari 2. flokks KA er Slobodan Milisic, fyrrum þjálfari KF og var nokkur eftirvænting eftir þessum leik þrátt fyrir að veðbankarnir hafi reiknað með sigri KF.  KF lék síðast 6. janúar en KA-2 lék á miðvikudaginn gegn Magna. Eini sigur KA liðsins hafði komið gegn KFA í fyrsta leik liðsins í riðlinum en liðið hafði tapað tveimur leikjum fyrir þennan leik.

KF gerði nokkrar breytingar frá síðasta leik en Helgi Már Kjartansson var kominn í markið fyrir Javon Sample sem var á bekknum. Gjaldkerinn, Hákon Leó var aftur kominn í byrjunarliðið eftir að hafa verið að jafna sig á meiðslum. Tveir leikmenn voru á reynslu hjá KF á þessum leik en það voru Rúnar Freyr Egilsson, 20 ára frá Þór Akureyri og Viktor Már Heiðarsson, fæddur 1999 og leikur fyrir Magna. Óvænt nafn var í byrjunarliðinu en varnarmaðurinn sterki Jordan Damachoua er kominn aftur í hópinn hjá KF en hann kláraði tímabilið með liðinu í fyrra eftir að hafa verið hjá Þór og Kórdrengjum síðustu ár, eftir tvö frábær tímabil með KF árin 2018-19. Hann verður vonandi með liðinu í sumar.

Þorsteinn Már Þorvaldsson var fyrirliði KF í þessum leik. KF liðið var sterkari aðilinn og skoraði fjögur mörk gegn einu og unnu glæsilegan sigur, en liðið stillti upp nokkuð sterku liði.  Sævar Þór Fylkisson var sjóð heitur á skotskónum og gerði tvö mörk fyrir KF. Marinó Snær Birgisson gerði eitt og Helgi Már Þorvaldsson gerði einnig eitt mark.

KF komst í 2-0 eftir 36. mínútur með marki frá Sævari Þór og Helga Má, staðan var því 2-0 í hálfleik.  KF komst í 3-0 á 57.mínútu þegar Marinó Snær skoraði og kom þeim í þægilega stöðu. KF gerði þrefalda skiptingu þegar um 10 mínútur voru eftir og fengu ungu strákarnir að koma inná sem voru á bekknum. Fjórða mark leiksins átti KA en það kom á 89. mínútu. Sævar Þór innsiglaði góðan sigur KF í uppbótartíma, skráð á 94. mínútu, 4-1.

KF leikur næst við KFA í lokaleik riðilsins á Kjarnafæðismótinu, þann 28. janúar næstkomandi.