Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti Haukum úr Hafnarfirði á Ólafsfjarðarvelli laugardaginn 8. júlí. Liðin hafa fylgst að í 2. deildinni undanfarin fjögur tímabil. Liðin hafa mæst 11 sinnum frá árinu 2011 og hefur KF unnið 2 leiki, 4 jafntefli og Haukar unnið 5 leiki. KF vann Hauka síðast árið 2021 í deildinni og var það stórsigur 5-0. KF vann einnig leik gegn Haukum í deildinni 2020. Það eru ChitoCare Beauty og Siglufjarðar apótek sem eru aðalstyrktaraðilar að allri umfjöllun um KF í sumar.
Upphitun:
Einn leikmaður KF var í leikbanni en það var Eduardo Cruz sem fékk rautt spjald í síðasta leik. Haukar voru einnig með einn leikmann í banni í þessum leik.
KF gat með sigri komist úr neðsta sætinu en Haukar hafa einnig átt í erfiðleikum í sumar og voru í 8. sæti deildarinnar fyrir leikinn. Formaður KF var á bekknum sem aðstoðarþjálfari ásamt Halldóri Guðmundssyni aðal þjálfara. Grétar Áki var með fyrirliða bandið og Sævar Fylkisson var kominn aftur inn í byrjunarliðið eftir að hafa haft magakveisu í síðasta leik. Það er mikilvægt fyrir KF að hafa hann í liðinu en hann hefur skorað helming marka liðsins í deildinni. Hann hefur skorað 5 mörk í 8 leikjum í deildinni, en KF hefur aðeins skorað 10 mörk í fyrstu 9 leikjunum.
Sævar Gylfason fyrrum leikmaður KF var í byrjunarliði Hauka í þessum leik en hann er á sínu fyrsta tímabili með liðinu eftir að hafa leikið fjögur tímabil með meistaraflokki KF. Auðun Auðunsson fyrrum leikmaður KF var á bekknum hjá Haukum í þessum leik, en hann lék á síðasta tímabili með KF.
KF hafði aðeins unnið 1 leik af 4 á heimavelli fyrir þennan leik.
Umfjöllun:
KF stillti upp sterku liði í dag og ætluðu að leggja allt undir til að ná í úrslit. Nýr framherji liðsins var þó ekki kominn með leikheimild fyrir þennan leik.
Það var Dagbjartur Búi Davíðsson leikmaður númer 9 hjá KF sem braut ísinn og skoraði eftir 27. mínútur fyrsta mark leiksins. Staðan 1-0 fyrir heimamenn og þannig hélst það fram að hálfleik.
Þjálfari KF gerði eina breytingu strax í hálfleik en útaf fór Þorsteinn Már Þorvaldsson sem var á gulu spjaldi og inná kom Jakob Auðun Sindrason.
KF náði sér í þrjú gul spjöld á tuttugu mínútna kafla um miðjan síðari hálfleik, enda mikil barátta í gangi. Önnur skipting KF kom á 77. mínútu þegar Akil De Freitas kom útaf fyrir Jón Frímann Kjartansson.
Það færðist meiri spenna í leikinn síðari hálfleik. KF komst í 2-0 á 80. mínútu með marki frá Alex Mána Garðarssyni, leikmanni númer 20. Hans fyrsta mark fyrir meistaraflokk KF.
Haukar voru fljótir að svara þessu og minnkuðu muninn á 83. mínútu í 2-1, en markið skoraði Fannar Friðleifsson. KF gerði tvær skiptingar eftir mark Hauka.
Töluverð spenna var nú síðustu mínúturnar um hvort gestirnir næðu að jafna leikinn eða hvort KF myndi sigla sigrinum heim.
Vörn KF hélt út og var þetta því þriðji sigur liðsins í sumar og er KF nú komið með 9 stig í deildinni og færist upp um eitt sæti. Sigrinum var vel fagnað í lok leiks hjá heimamönnum.
KF leikur næst við Sindra á Hornafirði, laugardaginn 15. júlí.
Það eru tveir frábærir styrktaraðilar sem gera okkur kleyft að halda úti öflugri íþróttaumfjöllun í Fjallabyggð og styðja nú við umfjöllun um alla leik KF í deild og bikar í sumar.
Takk Siglufjarðar Apótek og ChitoCare beauty.