Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti Dalvík/Reyni í Boganum á Akureyri í gær. Sannkallaður nágrannaslagur í Lengjubikarnum, en það er alltaf hart barist þegar þessi lið mætast.
KF nældi sér í þrjú gul spjöld í fyrri hálfleik, en rétt undir lok fyrri hálfleiks þá fékk Dalvík/Reynir vítaspyrnu og úr henni skoraði Borja Lopez Laguna og kom Dalvík/Reyni í 1-0. Aðeins mínútu síðar skoraði Dalvík/Reynir aftur, og var það Númi Kárason sem átti það mark, staðan orðin 2-0 og dómarinn flautaði til leikhlés.
Í upphafi síðari hálfleiks lendir markmaður Dalvík/Reynis í samstuði við annan leikmann og þurfti hann að yfirgefa svæðið í sjúkrabíl. Dalvík/Reynir hafði engan varamarkmann á bekknum í þessum leik, en 7 aðrir útileikmenn voru klárir í slaginn. Sóknarmaðurinn Jóhann Örn var settur í markið og stóð fyrir sínu. Dalvík/Reynir gerði sem sagt tvær skiptingar strax í upphafi síðari hálfleiks, og tvær skiptingar um miðjan hálfleikinn. Á 79. mínútu fékk Birkir Freyr Andrason leikmaður KF sitt annað gula spjald, og þar með rautt og spilaði KF með 10 menn til loka leiks. Undir lok leiksins fékk KF kjörið tækifæri til að minnka muninn þegar þeir fengu vítaspyrnu dæmda, en Jóhann Örn gerði sér lítið fyrir og varði spyrnuna.
KF gerði tvær skiptingar undir lok leiksins en Gabríel Reynisson kom inná en hann hefur ekki leikið mótsleik fyrir KF síðan árið 2015, en hefur núna tekið fram skóna. Gabríel er 30 ára og hefur leikið 144 leiki í deild og bikar fyrir KF og KS/Leiftur og skorað 23 mörk.
Inn vildi boltinn ekki hjá KF í þessum leik og voru lokatölur 2-0.