Arion banki í Fjallabyggð er styrktaraðili fréttaumfjallana um Knattspyrnufélag Fjallabyggðar í sumar.
KF mætir KFG á Ólafsfjarðarvelli laugardaginn 14. júlí kl. 15:00. Búast má við erfiðum leik en KFG er í öðru sæti deildarinnar með 18 stig. Liðið hefur unnið 6 leiki og tapað þremur. KFG hefur skorað flest mörk í deildinni, eða 23 mörk í 9 leikjum, en fengið á sig 13 mörk. Liðið á þrjá af markahæstu mönnum deildarinnar sem eru á topp 10 listanum. Helst bera að nefna fyrrum landsliðsmanninn Veigar Pál Gunnarsson, en hann hefur gert 5 mörk í sex leikjum fyrir liðið. Markahæstur er þó Jóhann Ólafur Jóhannsson með 6 mörk í 9 leikjum, en þessi drengur er 22 ára og hefur reynslu úr neðri deildum. Þá má einnig nefna Magnús Björgvinsson sem hefur gert 5 mörk í 7 leikjum í deildinni, og eitt mark í tveimur bikarleikjum. Hann er 31 árs og reynslumikill leikmaður sem hefur lengst af leikið í efstu deildum á Íslandi með Grindavík og Stjörnunni. Þetta eru því þeir menn sem þarf að dekka vel inn í teig og í föstum leikatriðum. Garðar Jóhannsson leikur einnig með liðinu, en hann hefur aðeins leikið 3 leiki í sumar, en hann er líklegur til að koma inná sem varamaður verði hann í hópnum. Garðar lék lengi í efstudeild á Íslandi með liðum eins og KR, Fylki, Stjörnunni og Val. Hann á t.d. 240 leiki í meistaraflokki og gert 86 mörk.
Liðin hafa mæst þrisvar sinnum áður og hefur KFG unnið alla leikina. Í fyrstu umferð í maí mættust liðin og vann KFG 1-0 á heimavelli, og var KF óheppið að ná ekki stigi úr þeim leik. Í fyrra mættust liðin einnig í deildinni og vann KFG þá heimaleikinn 5-1 og 1-2 á Ólafsfjarðarvelli.
KF er þremur stigum frá fallsæti eftir 9 umferðir og þarf nauðsynlega á stigum að halda til að koma sér ofar í töflunni. Aðeins sex stig eru á milli liða í 3. sæti til 8. sætis. Mesta áhyggjuefni hjá KF er markaskorun liðsins, en liðið hefur aðeins skorað 7 mörk í 9 leikjum, eða minna en 1 mark í leik. Vörnin hefur þó verið sterk og hefur liðið aðeins fengið á sig 13 mörk sem er með því minna í deildinni. Þá hefur Halldór Ingvar markmaður varið tvær vítaspyrnur í sumar, en hann hefur leikið 158 leiki fyrir KF og skorað 1 mark.
Í heildina má búast við mjög erfiðum leik, en ef vörnin verður sterk og ef liðið nýtir þau færi sem koma getur allt gerst.