Umfjöllun um leiki Knattspyrnufélags Fjallabyggðar í vor og sumar verða í boði Siglufjarðar apóteks sem eru aðalstyrktaraðili. Siglufjarðar Apótek leggur mikla áherslu á að bjóða framúrskarandi og persónulega þjónustu og vörur á góðu verði. Siglufjarðar Apótek var stofnað árið 1928 og er elsta starfandi apótek landsins í einkaeigu.
Knattspyrnufélag Fjallabyggðar heimsótti ÍR í Breiðholtinu í dag í 12. umferð Íslandsmótsins. Bæði lið höfðu aðeins unnið einn leik af siðustu fimm í deildinni fyrir þennan leik og vildu bæði lið fara með þrjú stig heim.
Það voru óvæntar leikmannafréttir frá KF en rétt fyrir leik þá fékk varnarmaðurinn Jordan Damachoua leikheimild með liðinu og var í byrjunarliðinu. Þessi ógnarsterki varnar og miðjumaður lék tvö tímabil með KF árin 2018-2019, lék 36 bikar- og deildarleiki og skoraði 6 mörk og lék vel þau tímabil. Mikill fengur að fá hann aftur í liðið, en hann kemur frá Þór, þar sem hann hefur ekki átt fast sæti með liðinu.
Liðin mættust í vor og fór þá 0-0 á Ólafsfjarðarvelli, en KF gekk ekki eins vel í Breiðholtinu á Íslandsmótinu í fyrr þegar liðið tapaði 0-6, en KF vann þó heimaleikinn 2-1.
Það voru heimamenn sem skoruðu fyrsta markið á 15. mínútu og komust í 1-0 á þessum sterka heimavelli. Sævar Gylfason jafnaði metin fyrir KF á 30. mínútu og var staðan 1-1. ÍR komst aftur yfir á 36. mínútu og leiddu 2-1 í hálfleik.
KF fékk vítaspyrnu eftir tíu mínútur í síðari hállfleik og úr henni skoraði markahæsti maður liðsins Julio Cesar Fernandes, og aftur náði KF að jafna, staðan orðin 2-2.
ÍRingar voru ekki hættir kom komust aftur yfir á 68. mínútu og var staðan orðin 3-2 í þessum mikla markaleik. Tæpum tíu mínútum síðar jafnaði KF metin í þriðja sinn þegar Ljubomir Delic skoraði sitt fyrsta deildarmark í sumar.
Hvorugu liðinu tókst að skora fjórða markið og voru því lokatölur 3-3 á ´ÍR-vellinum.
KF er í 9. sæti eftir þetta jafntefli með 12 stig. Liðið leikur næst við KFA á Ólafsfjarðarvelli nk. fimmtudag.