Umfjöllun um leiki Knattspyrnufélags Fjallabyggðar í vor og sumar verða í boði Siglufjarðar apóteks sem eru aðalstyrktaraðili. Siglufjarðar Apótek leggur mikla áherslu á að bjóða framúrskarandi og persónulega þjónustu og vörur á góðu verði. Siglufjarðar Apótek var stofnað árið 1928 og er elsta starfandi apótek landsins í einkaeigu.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Reynir í Sandgerði mættust í 10. umferð Íslandsmótsins á Blue-vellinum í Sandgerði. Hiti var um 10 gráður, skýjað og norðátt með 7 m/s þegar flautað var til leiks. KF og Reynir hafa fylgst að í deildum síðustu árin en í fyrra vann KF báða leikina gegn Reyni nokkuð örugglega og einnig þegar liðin léku í 3. deildinni árið 2019. Reyni hefur gengið illa að sækja sigra á þessu móti og voru í neðsta sæti með 8 tapaða leiki og einn sigur og þurftu nauðsynlega á öllum stigunum að halda. KF hafði aðeins sigrað tvo leiki og gert fjögur jafntefli fyrir þennan leik og hefur verið að missa af lestinni í toppbaráttunni og verið að síga niður töfluna. Þar á bæ ætluðu menn að selja sig dýrt gegn heimamönnum eftir vont tap gegn öðru Suðurnesjaliði í síðustu umferð. Reynir var að auki með nýjan þjálfara en Bjarki Már Árnason tók við liðinu fyrir nokkrum dögum.

KF mætti með sitt sterkasta lið, en brasilíumaðurinn var enn á bekknum eftir góða byrjun á mótinu og er hann markahæsti maður KF með 5 mörk í 9 leikjum. Spurning hvort einhver meiðsli séu í gangi hjá honum þar sem hann hefur verið á bekknum undanfarið.  Þjálfari KF gerði aðeins tvær breytingar frá síðasta leik sem tapaðist stórt, en Auðunn og Sævar Þór voru á bekknum, en Cameron Botes og Marinó Snær komu inn í byrjunarliðið.

Enn og aftur var dómarinn í stóru hlutverki í leiknum og veifaði gula spjaldinu ótt og títt á heimamenn og blístraði í flautuna þess á milli. Reynir lék fast og þétt og gáfu lítið eftir. Dómarinn dæmdi vítaspyrnu á KF á 18. mínútu og úr henni skoraði Zoran Plazonic, hans fyrsta mark í deildinni, en hann er reynslumikill leikmaður sem hefur leikið á Íslandi síðan 2018 og kom til liðsins á vormánuðum. Staðan 1-0 fyrir heimamenn.

Tveimur gulum spjöldum síðar og öðrum 18 mínútum flautaði dómarinn aftur víti, en nú á heimamenn. Hrannar Snær Magnússon steig á punktinn og skoraði fyrir KF og jafnaði leikinn í 1-1. Aftur komu tvö gul spjöld þar til dómarinn flautaði til hálfleiks.

Bæði lið gerðu eina skiptingu í hálfleik, en KF varnarmanninn Auðun Gauta inná fyrir Sævar Gylfason.

Fjórum gulum spjöldum síðar eða nánar tiltekið á 68. mínútu setti KF sinn heitasta markaskorara inná en Julio Fernandes kom inná fyrir Marinó Snæ og freistuðu gestirnir þess að ná inn sigurmarkinu.

Nokkuð jafnræði var í leiknum í fyrri hálfleik og þeim síðari, en KF fékk fleiri sóknir í fyrri hálfleik en Reynir sótti í sig veðri í síðari hálfleik.

KF gerði tvöfalda skiptingu á 82. mínútu þegar Aron Elí og Sævar Þór komu inná fyrir Symon Ericksen og Atla Snæ.

Nokkrum mínútum fyrir leikslok fékk markaskorari heimamanna sitt annað gula spjald og þar með rautt og léku þeir einu færri í nokkrar mínútur.

Hákon Leó Hilmarsson kom inn fyrir Ljuba Delic á 88. mínútu fyrir KF, en ekki tókst að koma boltanum yfir línuna og lauk leiknum með 1-1 jafntefli.

Heimamenn fengu 7 gul spjöld og eitt rautt en KF náði sér í 3 gul spjöld í þessum leik.

Nokkuð svekkjandi úrslit fyrir KF að landa ekki sigri gegn botnliðinu. KF er nú í 8. sæti deildarinnar eftir tíu leiki en liðið leikur næst 8. júlí við Hött/Huginn á Ólafsfjarðarvelli.