Umfjöllun um leiki Knattspyrnufélags Fjallabyggðar í vor og sumar verða í boði Siglufjarðar apóteks sem eru aðalstyrktaraðili.
Knattspyrnufélag Fjallabyggðar heimsótti Völsung á Húsavík í 5. umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu sem fram fór í gær á PCC vellinum á Húsavík.
Bæði lið voru ósigruð eftir fjórar umferðir en Völsungur hafði byrjað mótið vel og var í 2. sæti deildarinnar á meðan KF hafði aðeins gert fjögur jafntefli. Liðin hafa mæst reglulega síðustu árin og verið saman í 2. deildinni. Völsungur var hársbreidd frá því að komast upp um deild í fyrra og stefna upp í ár. Liðin mættust einnig í deildarbikarnum í vor og vann Völsungur leikinn með minnsta mun. Völsungur vann einnig sinn heimaleik í fyrra, en jafntefli fór á Ólafsfjarðarvelli.
Völsungur þurfti að gera strax skiptingu á 5. mínútu vegna meiðsla, en það voru gestirnir sem byrjuðu leikinn vel. KF komst yfir á 20. mínútu þegar Julio Fernandes skoraði fyrsta mark leiksins og kom KF í góða stöðu 1-0. KF hafði byrjað sóknina frá aftasta manni og náðu stungusendingu inn fyrir vörnina og tók Julio glæsilega á móti boltanum og afgreiddi snyrtilega í markið.
KF menn fóru sáttir inn í leikhlé með forystuna, en þeir byrjuðu líka síðari hálfleik mjög vel og komu strax inn öðru marki á 47. mínútu og aftur var það Julio Fernandes sem kom boltanum yfir línuna, hans fjórða mark í 5 leikjum. Staðan mjög vænleg 0-2 í upphafi síðari hálfleiks.
Heimamenn voru fljótir að skora eftir þetta mark og minnkuðu muninn strax í 1-2 á 50. mínútu. Þjálfari KF gerði tvær skiptingar um miðjan síðari hálfleik og fór markaskorari KF útaf fyrir Marinó Snæ Birgisson, og Daniel Kristiansen útaf fyrir Sævar Þór Fylkisson.
Völsungur skoraði skömmu eftir þessar tvær skiptingar KF eða á 76. mínútu og voru skyndilega búnir að jafna leikinn.
KF gerði eina skiptingu í viðbót og fór Hákon Leó Hilmarsson inná fyrir Atla Snæ á 86. mínútu.
Völsungur fékk tvö dauðafæri sem nýttust ekki á lokamínútum leiksins.
Allt stefndi í jafntefli, en heimamenn komu inn marki á fimmtu mínútu uppbótartíma og voru óvænt komnir yfir 3-2 eftir mikla endurkomu.
Dómarinn flautaði og heimamenn tóku þrjú stigin í dramatískum lokamínútum leiksins. Svekkjandi úrslit fyrir KF sem hafði leikið vel í leiknum og verið í góðri stöðu.