Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Völsungur á Húsavík mættust í dag í Lengjubikarnum en leikið var á gervigrasinu á Húsavík. Liðin mættust þrisvar sinnum á síðustu leiktíð í deild og bikar og vann Völsungur alla leikina. Húsvíkingar stilltu upp mjög ungu liði í dag og voru allir nema einn leikmaður yngri en 23 ára. KF stillti upp reynslumeira liði en voru með unga leikmenn á varamannabekknum. Hjá KF var Javon Sample í markinu og Jordan Damachoua var kominn í vörnina og Ljubomir Delic í framlínunni.

Hvorugu liðinu tókst að skora í fyrri hálfleik en heimamenn náðu sér þó í eitt gult spjald. Bæði liðin gerðu svo skiptingar í síðari hálfleik og komu ungir strákar inná völlinn hjá KF. Svo fór að ekkert mark var skorað í leiknum og  voru lokatölur því 0-0. Bæði liðin eru því komin sitthvort stigið í riðlinum.

Næsti leikur KF verður gegn í Fellabæ á Fljótsdalshéraði gegn Hetti/Huginn, sunnudaginn 26. febrúar.

Nánar verður greint frá þeim leik hér á vefnum að leik loknum.