Umfjöllun um leiki KF eru í boði Siglufjarðar apóteks og ChitoCare Beauty sem eru aðalstyrktaraðilar, smellið á tenglana til að sjá vöruframboðið og þjónustu þeirra á netinu.
Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti ÍR á Hertz-vellinum í Breiðholtinu í 10. umferð Íslandsmótsins í 2. deildinni. Árangur liðanna var svipaður í deildinni fram að þessum leik en KF var í 5. sæti með 14 stig en ÍR í 7. sæti með 12 stig. Liðin mættust í deildinni í fyrra og vann ÍR sinn heimaleik 1-0 og KF sinn heimaleik 3-2. Bæði liðin höfðu bætt við sig sterkum leikmönnum fyrir þennan leik eftir að félagskiptaglugginn opnaði. Nýjasti leikmaður KF, Vitor Vieira Thomas byrjaði á bekknum en hann er kominn á láni til KF frá Víking Ólafsvík þar sem hann hefur spilað í tvö tímabil, en var áður leikmaður KF. Ljubomir Delic var aftur kominn í hópinn hjá KF og byrjaði á bekknum. Javon var áfram í markinu hjá KF og Grétar Áki bar fyrirliðabandið, en það vantaði Oumar Diouck og Halldór markmann í liðið en þeir eiga við meiðsli að stríða. Leikurinn fór fram á gervigrasvelli ÍR, og stóðu um 40 áhorfendur á hliðarlínunni út við girðingu, en engin stúka er enn til staðar.
ÍR byrjaði með boltann og sótti í áttina að Kópavogi en KF sótti í áttina að Breiðholtinu. Bæði lið pressuðu hátt fyrstu mínútur leiksins, KF sótti mest upp vinstri kantinn og átti nokkrar fyrirgjafir í fyrri hálfleik og hornspyrnur, en ekki opin færi. ÍRingar sóttu einnig mest upp vinstri kantinn og áttu hættulegar sóknir í fyrri hálfleik. ÍR fékk hornspyrnu á 20. mínútu og varði Javon markmaður KF frábærlega í annað horn. ÍR skoraði úr horninu og komst yfir á 22. mínútu staðan orðin 1-0. Um 5 mínútum síðar skoraði ÍR aftur mark eftir gott spil og gegnumbrot og var staðan orðin 2-0. Á 35. mínútu varð fyrirliði og varnarmaður ÍR fyrir meiðslum og þurfti þjálfari ÍR að gera skiptingu.
Leikurinn var nokkuð jafn en ÍR var mun hættulegra í sínum sóknaraðgerðum og fengu nokkur horn og náðu góðu spili fyrir utan teig KF. Staðan var 2-0 þegar dómarinn flautaði til leikhlés.
Þjálfari KF gerði tvær breytingar í hálfleik ,en Ljubomir Delic og Vitor voru sendir inná til að reyna bæta leik KF og skapa fleiri færi. Hákon Leó átti skrautlega tæklingu á miðjum vellinum í upphafi síðari hálfleiks og fékk gult spjald að launum.
ÍR sótti upp vinstri kantinn á 55. mínútu og komust í gott færi og náðu frábæru skoti á markið sem Javon átti ekki möguleika að verja, 3-0 fyrir heimamenn. ÍR átti aðra hraða sókn á 66. mínútu og skoruðu gott mark, 4-0. Aðeins mínútu síðar átti ÍR aðra sókn og skoruðu aftur, staðan 5-0.
Þorsteinn Már kom inná fyrir KF þegar um 15. mínútur voru eftir af leiknum.
KF hélt boltanum illa í síðari hálfleik og átti erfitt með að komast í gegnum pressu ÍR, og áttu ekki góðan leik. ÍR sótti áfram og flestar sóknir upp vinstri kantinn. Ein slík skilaði marki númer sex hjá ÍR. 6-0 á Hertz-vellinum og allt lak inn í þessum leik hjá KF. ÍR lék á alls oddi í síðari hálfleik og voru fullir sjálfstrausts og átti KF erfitt með að verjast þeirra hröðu sóknum upp vinstri kantinn.
Það gekk hreinlega allt upp hjá ÍR þessum leik en ekkert hjá KF. Stórt tap og leikmenn KF misstu algerlega haus í síðari hálfeik og ÍR gekk á lagið og raðaði inn mörkum. Lokatölur 6-0 í þessum leik.
KF datt niður í 8. sæti deildarinnar með 14 stig eins og Reynir Sandgerði og Völsungur. Það er þéttur pakki um miðbygg deildarinnar á þessari stundu og sigur í leik getur fært lið upp í fjórða sæti.