Umfjöllun um leiki Knattspyrnufélags Fjallabyggðar sumar hafa verið í boði Siglufjarðar apóteks. Er þeim þakkað kærlega fyrir stuðninginn.

Umfjöllun:

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Höttur/Huginn (HH) mættust í lokaleik Íslandsmótsins í 2. deild karla. Liðin voru í 6.-7. sæti deildarinnar og var aðeins keppt um heiðurinn í þessum leik. Liðin mættust í fyrri umferðinni í júlí á Ólafsfjarðarvelli og vann HH 1-2 í þeim leik.

Þorsteinn Þór Tryggvason var þjálfari KF í þessum leik en en Slobodan Milisic hefur látið af störfum eftir sex tímabil. Þorsteinn Þorvaldsson var Þorsteini þjálfara til aðstoðar á bekknum í þessum leik. Nýr þjálfari verður þó líklega ráðinn á næstu vikum eða mánuðum.

Nokkrar breytingar voru á byrjunarliði og voru sterkir leikmenn sem byrjuðu á bekknum hjá KF á meðan nokkrir yngri leikmenn fengu óvænt tækifæri í byrjunarliði. Aðalmarkmaður KF, Javon Sample var ekki á leikskýrslu í þessum leik og stóð Helgi Kjartansson vaktina.

Heimamenn voru með mikla hátíð fyrir leik þar sem var lokahátíð yngri flokka félagsins. Þá var tilkynnt að þjálfari liðsins hefði skrifað undir nýjan 2ja ára saning. Frítt var inn á völlinn í boði fyrirtækja á Austurlandi.

Höttur/Huginn byrjaði af krafti í fyrri hálfleik og voru meira með boltann og sköpuðu sér nokkur ágætis færi. Á 10. mínútu kom fyrsta mark leiksins og voru það heimamenn sem skoruðu.

KF jafnaði aðeins fjórum mínútum síðar og var það aðalmarkaskorari liðsins, Julio Cesar Fernandes sem skoraði sitt 16 mark í 20 leikjum fyrir KF. KF fékk svo frábært tækifæri á lokamínútum fyrri hálfleiks til að komast yfir, en boltinn fór rétt framhjá markinu í upplögðu marktækifæri. Staðan var því 1-1 í hálfleik.

Þjálfari KF gerði fjórar breytingar í hálfleik og setti sterka leikmenn inná en það voru, Benjamin Omerovic, Sævar Þór Fylkisson, Daniel Kristiansen og Aron Elí Kristjánsson sem komu inná fyrir Jón Frímann Kjartansson, Þorvald Daða Jónsson, Auðun Gauta Auðunsson og Þorstein Má Þorvaldsson.

Höttur/Huginn byrjaði síðari hálfleik af miklum krafti og skoruðu strax í upphafi og komust í 2-1 á 47. mínútu. Þeir voru mun sterkari aðilinn næsta hálftímann og komust í 3-1 á 56. mínútu. Grétar Áki kom inná fyrir Symon hjá KF á 60. mínútu og var líflegur á miðjunni það sem eftir lifði leiks.

KF komst meira inn í leikinn eftir miðjan síðari hálfleik og fékk nokkur hálffæri úr hornspyrnum liðsins. KF minnkaði þó muninn í 3-2 á 68. mínútu þegar Sævar Þór Fylkisson skoraði gott mark. KF gerðu hvað þeir gátu til að jafna metin eftir þetta mark og var líf í framlínunni. Markmaður heimamanna varði oft vel þegar KF náði að skapa hættu eftir hornspyrnur í síðari hálfleik.

Spilið hjá heimamönnum datt niður þegar leið á síðari hálfleik og KF gerðu sig líklega að koma inn jöfnunarmarki og pressuðu hátt. Bæði lið fengu sitthvort færið undir lok leiksins en fleiri mörk voru ekki skoruð.

Höttur/Huginn vann leikinn 3-2 og var þetta síðasti leikur liðanna á Íslandsmótinu í 2. deild.

KF endar því mótið á tapi eftir ágætis gengi í síðustu leikjum Íslandsmótsins og enda með 26 stig.

Julio Cesar Fernandes sóknarmaður KF endar með 16 mörk og er meðal markahæstu manna í deildinni. Hann hefur verið líflegur í allt sumar og skilað sínu hlutverki vel.