Knattspyrnufélag Fjallabyggðar heimsótti Hött/Huginn í Múlaþing í 10. umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu. Höttur/Huginn er sameinað lið, en Seyðisfirðingar og strákarnir á Egilsstöðum settu saman í lið fyrir nokkrum árum til að mynda sterkt lið frá þessu svæði.  Liðið var í 9. sæti með 9 stig fyrir þennan leik en KF var með 4 stig eftir 9 leiki og í neðsta sæti deildarinnar. Þetta er þriðja árið sem liðin eru saman í 2. deildinni en KF vann heimaleikinn í fyrra og náði jafntefli fyrir austan. Árið 2022 vann Höttur/Huginn báða leikina á Íslandsmótinu. Þess á milli hafa liðin mæst í Lengjubikarnum og Kjarnafæðismótinu og þekkjast því vel. Þessir leikir hafa alltaf verið fjörugir og nóg af mörkum. Þeir sem ekki hafa komið á Vilhjálmsvöll, þá er hlaupabraut í kringum völlinn sjálfan og ýmis kastsvæði fyrir frjálsar íþróttir. Bakvið völlinn er svo æfingavöllur og skógarlundur í kringum svæðið.

Siglufjarðar Apótek er aðalstyrktaraðili umfjallana um meistaraflokk KF í sumar eins og undanfarin ár. Á heimasíðu Siglufjarðar Apóteks getur þú pantað lyf og keypt vítamín og bætiefni, hjúkrunarvörur og snyrtivörur.

Upphitun: 

KF þurfti sannarlega á öllum stigum að halda til að koma sér í gang og reyna klifra upp töfluna, en spyrnan getur verið góð þegar maður er á botninum. KF strákarnir fóru í rútu en ferðalagið er rúmlega 4 klukkustundir. Með í för og á leikskýrslu var formaður félagsins, enda nauðsynlegt að þétta raðirnar þegar erfiðlega gengur. Halldór þjálfari var á varamannabekknum sem varamarkmaður í þessum leik. Þá voru tveir leikmenn í leikbanni en Vitor Thomas og Jakob Auðun Sindrason tóku báðir út bann í þessum leik.

KF stillti annars upp reynslumiklu liði með þá Edu Cruz, Akil De Freitas og Jordan Damachoua innan borðs. Ljubomir Delic bar fyrirliðabandið í leiknum eins og undanfarna leiki.

Höttur/Huginn leika vanalega 4-5-1 eða 4-2-3-1, eftir því hvort þeir verjast eða sækja og eru þéttir á miðjunni með tvo djúpa miðjumenn. Þeirra markahæsti maður er Martim og er fresmsti sóknarmaður liðsins, og hefur hann gert 5 mörk í 9 leikjum í deildinni á sínu fyrsta tímabili með liðinu. Þar þarf því að hafa gætur á þeim leikmanni.

Umfjöllun:

Heimamenn voru ákafir í að ná sér í sigur eftir þrjá tapleiki í röð og voru betra liðið í fyrri hálfleik. Fyrsta mark leiksins kom á 17. mínútu þegar Höttur/Huginn kom boltanum í netið hjá KF. Staðan 1-0 fyrir heimamenn. Heimamenn héldu boltanum vel í fyrri hálfleik og áttu nokkrar góðar sóknir. Staðan var 1-0 í hálfleik.

KF liðið kom sterkara inn í síðari hálfleik og lék vel á köflum. Marinó Snær kom inná fyrir Jón Frímann þegar um 30 mínútur voru eftir af leiknum og Anton Karl kom inná fyrir Agnar Óla þegar um 20 mínútur voru eftir og heimamenn gerðu einnig tvöfalda skiptingu á sama tíma.

Heimamönnum tókst að verja markið og inn vildi boltinn ekki hjá KF. Lokastaðan 1-0 og KF er enn í neðsta sæti deildarinnar.

Einn sigur og eitt jafntefli hjá KF eftir 10 leiki og á brattann að sækja.

 

Varamenn
Byrjunarlið