Knattspyrnufélag Fjallabyggðar heimsótti lið Hauka í Hafnarfirði í næstsíðustu umferð Íslandsmótsins í 2. deild karla í knattspyrnu. KF þurfti sigur eða jafntefli og hagstæð úrslit í öðrum leikjum til að komast úr fallsæti fyrir lokaumferðina.  KF vann Hauka í fyrri umferðinni í sumar í deildinni og gaf það smá von um úrslit í leiknum. Haukarnir eru um miðja deild og höfðu ekki að miklu að keppa nema stoltinu, en liðið lagið sig þó alla fram við að sækja úrslit gegn KF sem er í bullandi fallbaráttu.

Siglufjarðar Apótek er aðalstyrktaraðili umfjallana um meistaraflokk KF í sumar eins og undanfarin ár. Á heimasíðu Siglufjarðar Apóteks getur þú pantað lyf og keypt vítamín og bætiefni, hjúkrunarvörur og snyrtivörur.

KF stillti upp reynslumiklu liði í dag og ætlaði þjálfarinn að sækja í reynslumeiri leikmenn liðsins til að ná í úrslit í þessum leik. Á bekknum voru þó sterkir leikmenn tilbúnir að koma inná.

Umfjöllun:

Heppnin var með KF á upphafsmínútum leiksins, en Ísak Jónsson fyrirliði Hauka gerði sjálfsmark á 9. mínútu leiksins og leiddi því KF 0-1. Um 15 mínútum síðar voru Haukar búnir að jafna leikinn og rétt fyrir hálfleik var staðan orðin 2-1 fyrir heimamenn.

Á 63. mínútu komust Haukar í 3-1 og eftir það áttu þeir leikinn. Þjálfari KF gerði hér tvær skiptingar og kom Vitor og Grétar Áki inná fyrir Marinó Snæ og Aron Elí. Haukar gerðu einnig tvöfalda skiptingu á þessum tímapunkti. Tíu mínútum síðar kom Agnar Óli inná fyrir Jonas Benedikt og Haukar gerðu einnig skiptingu á þessum tíma.

Á síðustu 10 mínútum leiksins skoruðu þeir tvö mörk til viðbótar og unnu 5-1 sigur á liði KF.  Eftir fimmta markið kom Auðun Gauti og Ljubomir inná  fyrir Sævar Þór og Jakob.

Nokkuð var um gul spjöld í leiknum en Haukar fengu 6 gul spjöld og KF tvö.

Ekki góð úrslit fyrir KF og markatalan lagaðist ekki. KF missti hér af góðu tækifæri til að komast úr botnsætinu því liðin fyrir ofan töpuðu bæði sínum leikjum í dag.

Staða KF ræðst því í lokaumferðinni og á úrslitum annara liða. Ekki frábær staða til að vera í svona undir lok mótsins.

Það ræðst því í leiknum á móti Hetti/Huginn í lokaumferðinni og úrslitum liðanna fyrir ofan, hvaða lið fylgir Reyni Sandgerði niður í 3. deildinni.Reynir vann Hött/Huginn í þessari umferð nokkuð óvænt.

Siglufjarðar Apótek er aðalstyrktaraðili umfjallana um meistaraflokk KF í sumar eins og undanfarin ár. Á heimasíðu Siglufjarðar Apóteks getur þú pantað lyf og keypt vítamín og bætiefni, hjúkrunarvörur og snyrtivörur.