Umfjöllun um leiki KF eru í boði Siglufjarðar apóteks og ChitoCare Beauty sem eru aðalstyrktaraðilar, smellið á tenglana til að sjá vöruframboðið og þjónustu þeirra á netinu.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Njarðvík mættust í 19. umferð Íslandsmótsins í 2. deild karla í dag á Ólafsfjarðarvelli. Njarðvík vann fyrri leik liðanna í sumar 2-1 á sínum heimavelli. Njarðvík er einnig með næst markahæsta mann deildarinnar, Kenneth Hogg, en hann hafði gert 11 mörk í 18 deildarleikjum fyrir þennan leik og er lykilmaður í liði þeirra. Njarðvík var í 5. sæti fyrir leikinn og gat komist í 4. sæti með sigri. KF var komið í 7. sæti eftir önnur úrslit í umferðinni en gat einnig komist í 4. sæti deildarinnar og nálgast toppliðin. Hvorugt liðið mætti tapa þessu leik til að missa ekki af toppbaráttunni í síðustu umferðum mótsins.

KF hafði aðeins unnið 1 af síðustu 5 leikjum í deildinni og hefur illa gengið að ná í sigra undanfarið, en heimavöllurinn hefur reynst liðinu vel það sem af er móti, en ekki eins vel gengið á útvelli. Þjálfari KF gerði nokkrar breytingar á byrjunarliðinu frá síðasta leik. Hákon Leó, Nikola Kristinn, Andri Morina og Aron Elí voru komnir í byrjunarliðið en þrír af þeim voru á bekknum í síðasta leik.

Það var hart barist í fyrri hálfleik KF misnotaði meðal annars vítaspyrnu og átti skot í slánna. En engin mörk litu dagsins ljós og var því staðan 0-0 þegar dómarinn flautaði til leikhlés. Það voru gestirnir sem skoruðu fyrsta markið á 62. mínútu þegar Marc Mcausland fyrirliði liðsins setti boltann framhjá Dóra markmanni KF. Staðan 0-1 og tæpur hálftími eftir. KF fékk nokkur dauðafæri en þau nýttust ekki.

KF gerði fljótlega skiptingu eftir markið en Aron Elí kom útaf fyrir Bjarka Baldursson. Á 73. mínútu gerði KF aðra skiptingu og nú fór Hákon Leó og Sævar Gylfason útaf fyrir Alexander Örn og Birki Má. KF gerðu hvað þeir gátu til að ná inn jöfnunarmarkinu, en inn vildi boltinn ekki. Gestirnir skoruðu sitt annað mark á 85. mínútu og var Kenneth Hogg maðurinn á bakvið það. Staðan 0-2 og skammt eftir af leiknum. Njarðvíkingar héldu út og unnu góðan 0-2 sigur á KF og komust í 4. sæti deildarinnar.

Möguleikar KF á 2.-3. sæti deildarinnar er nánast úr sögunni eins og úrslit síðustu leikja hefur verið. KF er í 7. sæti með 28 stig eftir þessa umferð og á núna þrjá leiki eftir og getur sótt sér 9 stig. Þetta var aðeins annar heimaleikurinn í deildinni í sem liðið tapar á Íslandsmótinu í sumar, en það hefur verið sterkt vígi.