Sameiginlegt lið KF og Dalvíkur sendi fjögur lið á Reycup mótið sem hófst á fimmtudaginn sl. og lauk í dag með úrslitaleikjum. Liðin léku alls 24 leiki á þessu mót og fara heim reynslunni ríkari.
Leikirnir í dag voru allir í kringum hádegið og voru leiknir í Laugardalnum og í Safamýrinni.
Fyrsti leikur dagsins var hjá KF/Dalvík og Þór-1 í 4. flokki drengja í styrkleika 1, en keppt var um 9.-10. sætið. Það voru Þórsarar sem voru sterkari aðilinn í leiknum og leiddu 1-0 í hálfleik. Þjálfari KF/Dalvíkur fór yfir leikplanið vel í hálfleik og gaf fyrirmæli til strákana. Þórsarar komust fljótlega í 2-0 eftir að sending úr vörn KF/Dalvík rataði til mótherja sem komst einn í gegn og skoraði örugglega. Þór skoraði aftur skömmu síðar eftir góða skyndisókn. Þórsarar áttu svo lokamarkið einnig og unnu leikinn nokkuð örugglega 4-0 og nýtt sín færi vel.
Næsti leikur var hjá stelpunum í 1. styrkleika hjá KF/Dalvík á móti Grindavík. Leikurinn var jafn og endaði í vítaspyrnukeppni. Mikil spenna var fyrir síðustu spyrnuna sem KF/Dalvík átti og var það sigurspyrnan. Lokatölur 4-3 í þessum leik um 11.-12. sætið.
Strákarnir í 3. styrkleika hjá KF/Dalvík léku gegn KA-3 um 7.-8. sæti. Leikurinn endaði 8-7 fyrir KA, en hefur líklega farið í vítaspyrnukeppni, en það er óstaðfest þegar þetta er skrifað.
Síðasti leikur dagsins var hjá stelpunum í 3. styrkleika, KF/Dalvík-2 gegn Austurlandi-2. Það voru stelpurnar að austan sem unnu leikinn naumlega 0-1, en leikið var um 13.-14. sætið.
Liðin halda heim í dag ásamt fjölskyldum sem fjölmenntu á mótið og hvöttu liðin áfram. Veður var gott alla dagana og góður hiti.