Karlmaður á fertugsaldri var í morgun úrskurðaður í gæsluvarðhald til 12. nóvember af Héraðsdómi Norðurlands eystra að kröfu Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra. Lögreglan rannsakar nú fjölmörg ofbeldisbrot mannsins, þar á meðal gegn unnustu, sambýlisfólki og nágrönnum í Hrísey.
Ætla má að sakborningur muni halda áfram brotum á meðan málum hans er ekki lokið í réttarvörslukerfinu og var krafa lögreglustjóra um gæsluvarðhald því gerð á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála.
Sakborningur verður fluttur með aðstoð Ríkislögreglustjóra í fangelsið á Hólmsheiði til að sæta gæsluvarðhaldi.