Karlalið Blakfélags Fjallabyggðar lék tvo leiki á Íslandsmótinu í 2. deild karla í dag í Garðabæ. Fyrri leikurinn var á slaginu 8:00 í morgun við heimamenn í Álftanesi C. Heimamönnum hafði ekki gengið vel í leikjum gærdagsins en BF strákarnir höfðu sótt nokkra sigra.

Í ár spilar þjálfari og aðstoðarþjálfari með liðinu og er það mikill styrkur fyrir yngri strákana og gefur liðinu meiri breidd.
Leikurinn var hraður og fór í oddahrinu en var lokið á innan við klukkutíma. Heimamenn byrjuðu betur og leiddu mest allan tímann í fyrstu hrinu og náðu góðu forskoti. BF jafnaði þó 11-11 en heimamenn kláruðu hrinuna 25-16. Taflið snérist við í annari hrinu en þá var það BF sem leiddi mestan tímann og voru betri aðilinn. BF komst í 13-20 en heimamenn settu smá spennu í leikinn og minnkuðu muninn í 18-20. BF voru sterkari á endasprettinum og unnu 21-25 og var því farið í oddahrinu. BF byrjaði oddahrinuna mjög vel og komust í 0-4 og 5-11. Heimamenn hrukku þá í gang og jöfnuðu leikinn 13-13 og unnu 15-13 eftir mikla baráttu. BF tapaði því leiknum 2-1.

BF-HK b

Síðari leikur dagsins hjá körlunum var gegn HK-b.  BF byrjaði leikinn vel og leiddu alla fyrstu hrinuna og unnu með nokkrum yfirburðum 25-16.  Önnur hrina var líka þægileg og átti HK engin svör við góðum sóknum BF. Lokatölur 25-14 í seinni hrinunni og vann BF leikinn því 2-0.

BF gerði því góða ferð suður og unnu 4 leiki af 5 í 2. deild karla.