Karlalið Blakfélag Fjallabyggðar lék tvo leiki í 2. umferð Íslandsmótsins í dag á Dalvík. Fyrri leikurinn var gegn HKörlum og síðari gegn Fylki.

HKarlar – BF

Leikurinn var jafn framan af en BF átti frábæran endasprett í fyrstu hrinu. HK leiddu lengst af og komust í 14-11 og 19-16. Í stöðunni 20-18 hrökk BF vélin í gang og settu 7 stig í röð og unnu hrinuna 20-25.

BF strákarnir byrjuðu af krafti í seinni hrinunni og komust í 1-8 og 5-13.  HKarlar komust ekki almennilega í takt við leikinn og BF hélt góðu forskoti áfram í stöðunni 9-18 og 15-21. BF kláraði hrinuna örugglega 18-25 og unnu leikinn 0-2.

Fylkir-Polska – BF

Lokaleikurinn var gegn Fylki-Polska eftir hádegið, en það eru pólskir strákar sem halda úti liði undir merkjum Fylkis. Leikurinn var fjörugur og fór í oddahrinu. BF liðið var mun betra í fyrstu hrinu og komst í 5-11 og kláraði Fylkir tvö leikhlé á stuttum tíma. Taktík BF að taka ekkert hlé virkaði vel og komust þeir í 7-16 og 10-19. BF kláraði hrinuna hratt og vel og unnu 14-25.

Önnur hrina var mun jafnari og átti Fylkir góða kafla.  Jafnt var í stöðunni 11-11 en Fylkir komst í 20-14 en BF komt til baka og minnkuðu muninn í 20-18. Spenna var á síðustu mínútum hrinunnar og jafnt var í 22-22- og 23-23 en Fylkir átti lokastigin og unnu 25-23 og jöfnuðu leikinn 1-1.

Oddahrinan var jöfn og fór í upphækkun. BF komst í 7-10 og 11-14. Fylkir átti þá góðar sóknir og komst yfir 15-14. BF átti þó síðustu þrjú stigin og unnu 15-17 og leikinn 1-2.