Karlalið Blakfélags Fjallabyggðar leikur í 2.deildinni í ár og var þar þriðja mótshelgin leikin um helgina, en ekki er keppt jafnt og þétt yfir veturinn eins og í 1. deildinni heldur í þremur helgarmótum og álagið því talsvert á þau lið sem hafa fáa varamenn.

Strákarnir í Þrótti Neskaupsstað héldu mótið en þangað er gaman að fara og spila blak. Staðurinn er afskekktur svona yfir vetrartímann og margir eldri blakspilarar eiga minningar þaðan eftir langar rútuferðir eða flugferðir sem farnar voru einnig fyrir um 30 árum. Nokkur lið léku einnig á Reyðarfirði í þessu móti þar sem allur fjöldinn komst ekki fyrir á Neskaupsstað.

BF strákarnir léku á laugardag og sunnudag alla sína leiki og gekk ágætlega. Fyrsti leikur BF var gegn Fylki-Polska og fór leikurinn 1-2. Fylkir vann fyrstu hrinuna örugglega 12-25. BF vann næstu hrinu eftir upphækkun 26-24. Fylkir vann oddahrinuna eftir upphækkun 16-14.

BF lék næst við heimamenn í Þrótti Nes-C en heimamenn unnu leikinn 1-2. BF vann fyrstu hrinuna eftir miklabaráttu og upphækkun 26-24.  Þróttur vann næstu 18-25 og oddahrinuna 10-15.

Síðasti leikur BF á laugardeginum var gegn Fylki-C en BF vann þann leik 0-2.  Fyrsta hrinan fór 21-25 og síðari 22-25.

Morgunleikurinn á sunnudag var gegn HKörlum og vann BF leikinn 1-2. HKarlar unnu fyrstu hrinuna 25-21. Önnur hrina var jöfn og spennandi og vann BF eftir upphækkun 26-24. BF vann einnig oddahrinuna 11-15.

Lokaleikur BF fyrir austan var gegn Völsungi og vann BF leikinn 1-2. Völsungur vann fyrstu hrinuna naumlega 25-23 eða með minnsta mun.  BF svaraði og vann næstu hrinun 19-25 og var nú jafnt og oddahrina framundan.  BF vann oddahrinuna 11-15 og fóru sáttur heim.