Rokktónlist eftir Bítlana og Queen er viðfangsefni sem fæstir karlakórar taka sér fyrir hendur. Hún er hinsvegar daglegt brauð hjá félögum í Karlakór Dalvíkur.

Félagar í Karlakór Dalvíkur eru á leið til Færeyja en þar ætla þeir að flytja rokkdagskrá þar sem tónlist eftir Bítlana og Queen verður í aðalhlutverki. Þessa dagskrá hafa þeir flutt víða um land.

„Ég held að við séum búnir að flytja þetta einum fjórtán sinnum fyrir fullu húsi hérna heima, bæði fyrir sunnan og hérna fyrir norðan,” segir Guðmundur Óli Gunnarsson, stjórnandi kórs.

Óhætt er að segja að hér feti Svarfdælingarnir heldur óhefðbundnar slóðir þegar karlakórasöngur er annars vegar.

„Þetta er nú bara tónlistin sem þessir karlar ólust upp við,” segir Guðmundur Óli. En auðvitað eru þeir líka þaulæfðir í rótgrónum íslenskum ættjarðarlögum.

Heimild: Rúv.is