Sunnudaginn 6. maí n.k. kl. 15:00  sækja tveir kórar frá Akureyri  Siglfirðinga heim. Kvennakór Akureyrar og Karlakór Akureyar – Geysir ætla að sameina krafta sína og halda tónleika í Siglufjarðarkirkju. Karlakór Siglufjarðar tekur á móti kórunum og syngur nokkur lög með Karlakór Akureyrar-Geysi.  Jónas Þór Jónasson syngur einsöng með karlakórnum og kvartett skipaður félögum úr Karlakór Akureyrar Geysi tekur einnig lagið.

Kvennakór Akureyrar var stofnaður á vordögum árið 2001 og fagnaði s.l. haust 10 ára afmæli sínu.  Kórinn gaf út sinn fyrsta geisladisk vorið 2008 og ber hann  “Sólardans á vori”.  Á komandi sumri heldur kórinn í söngför til Kanada, en áður hefur hann farið til Slóveníu og Eistlands. Stjórnandi Kvennakórs Akureyrar er Daníel Þorsteinsson og annast hann einnig  undirleik.

Karlakór Akureyrar-Geysir var  stofnaður úr tveimur kórum eins og nafnið bendir til árið 1990. Kórinn hefur gefið út tvo geisladiska. “Vorklið”  árið 1997 og “Á Ljóðsins Vængjum” sumarið 2005. Þá hefur kórinn farið í söngferðir til Noregs, Finnlands, Eistlands og Ítalíu. Stjórnandi Karlakórs Akureyrar-Geysis er Valmar Väljaots.

Söngskráin er afar fjölbreytt og skemmtileg og má þar finna bæði íslensk og erlend lög, allt frá þjóðlögum til nýrri tónsmíða. Sungin eru lög við ljóð kunnra höfunda svo sem Davíðs Stefánssonar, Jónasar Hallgrímssonar, Steingríms Thorsteinssonar, Megasar o.fl., en einnig syngja kórarnir erlend lög við enska, þýska, ítalska og japanska texta svo nokkuð sé nefnt.

Tónleikarnir í Siglufjarðarkirkju hefjast kl. 15:00, miðar seljast við innganginn og kosta kr. 2000.-

Að loknum tónleikum þiggja kórfélagar veitingar á Kaffi Rauðku, áður en haldið verður heim á leið.

Texti og mynd:  Aðsent efni.