Kammerkór Norðurlands heldur tónleika í Siglufjarðarkirkju sunnudaginn 15. apríl kl. 17.
Yfirskrift tónleikana er “Úr ljóðum Laxness”, en kórinn flytur eingöngu lög við ljóð Halldórs Laxness. Að hluta er um að ræða þekkt lög, en helmingur laganna hafa ekki verið flutt áður eða hafa verið samin sérstaklega fyrir kórinn af þessu tilefni. Þeir lagahöfundar sem nú hafa lagt kórnum lið eru: Haukur Tómasson, Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson og Jóhann G. Jóhannsson.
Stjórnandi er Guðmundur Óli Gunnarsson.
Miðaverð er aðeins 2.000. kr. (ekki hægt að greiða með korti)
Um kórinn
Kammerkór Norðurlands var stofnaður á haustdögum 1998. Hann skipar söngfólk af Norðurlandi, allt frá Kópaskeri vestur á Sauðárkrók. Kórinn hefur flutt margs konar tónlist víðs vegar um Norður- og Vesturland, einnig á Selfossi og í Reykjavík. Kórinn hefur haldið tónleika í samstarfi við aðra og þá tekist á við stærri verk á borð við Krýningarmessu Mozarts, Sálumessu Verdis, Messu eftir C. M. Widor og páskahluta Messíasar eftir Händel. Á undanförnum árum hefur kórinn einbeitt sér að flutningi íslenskra tónverka og frumflutt nokkur þeirra. Sum verkanna hafa verið samin sérstaklega fyrir kórinn.
Guðmundur Óli Gunnarsson nam hljómsveitarstjórn í Hollandi og Helsinki. Hann hefur verið aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands frá 1992 og fastur stjórnandi Caput frá 1987. Hann tók við stjórn Kammerkórsins árið 2000. Guðmundur Óli hefur auk þess samið kórlög sem kórinn hefur sungið.