Vorkoma Akureyrarbæjar var haldin í Listasafninu á Akureyri á sumardaginn fyrsta. Þar var meðal annars kunngjört að Jonna Jónborg Sigurðardóttir, væri bæjarlistamaður Akureyrar 2024.

Undanfarin ár hefur Jonna einbeitt sér að endurvinnslulistsköpun og haldið fjölmargar sýningar auk þess að taka þátt í samsýningum. Ruslatunnur bæjarins hafa borið textílverk hennar og vakið mikla athygli vegfarenda og ferðamanna. Jonna hefur og setið í stjórn Myndlistarfélagsins á Akureyri en auk þess látið sig miklu varða alla aðra viðburði sem eiga sér stað í Listagilinu á Akureyri.

Í umsögn faghóps um útnefninguna segir meðal annars: „Við val á bæjarlistamanni horfðum við fyrst og fremst til þriggja meginþátta: þess sem listamaðurinn hefur unnið að á undanförnum árum, þeirra verkefna sem listamaðurinn ætlar sér að sinna á tímabilinu og auðga þar með menningarlíf bæjarins og þess að hann búi og starfi á Akureyri.“

Heiðursviðurkenningar Akureyrarbæjar fyrir vel unnin störf í þágu menningar og samfélagsins hlutu að þessu sinni nafnarnir Þorsteinn Pétursson, Steini Pje, fyrir óeigingjarnt framlag sitt til varðveislu og nýtingar eikarbátsins Húna II, og Þorsteinn E. Arnórsson, fyrir mikilsvert framlag til varðveislu iðnaðarsögu Akureyrar og reksturs Iðnaðarsafnsins á Akureyri.

Einbýlishúsið að Nonnahaga 9 hlaut Byggingalistaverðlaun Akureyrarbæjar sem teiknað er af Björgvini Snæbjörnssyni arkitekt.

Síðustu ár hefur sveitarfélagið veitt ungum listamanni styrk til að sinna köllun sinni yfir sumarmánuðina og að þessu sinni varð Sunneva Kjartansdóttir, dansari og danshöfundur, fyrir valinu. Sunneva leggur nú stund á dansnám í Copenhagen Contemporary Dance School.

Loks er þess að geta að Rauða krossinum við Eyjafjörð var veitt sérstök mannréttindaviðurkenning fyrir gott starf í þágu samfélagsins og Drífa Helgadóttir var heiðruð fyrir framúrskarandi sjálfboðaliðastarf fyrir Lautina, athvarf fyrir fólk með geðraskanir.

Tónlistaratriði á Vorkomunni voru í höndum Júlíönu Þórhallsdóttur og Matiss Leo Meckl, nemenda í Tónlistarskólanum á Akureyri.