Rauðkumenn halda áfram að bjóða uppá góða afþreyingu í Fjallabyggð. Bíómyndin Jón og séra Jón verður sýnd í Rauðkubíói laugardaginn 5. nóvember kl. 21 á Siglufirði. Myndin er heimildarmynd og er 72. mínútur að lengd. Myndin hlaut áhorfendaverðlaun Skjaldborgar 2011. Kvikmyndataka: Steinþór Birgisson og Sigurbjörn Búi Baldvinsson. Klipping: Steinþór Birgisson.
Nánar um myndina:
Séra Jón Ísleifsson hefur verið sóknarprestur í Árnesi Ströndum í 12 ár. Hann lifir lífinu á sinn eigin sérstæða máta og af honum eru margar sögur bæði sannar og ósannar. Í kjölfar langvinnra deilna innan safnaðarins er svo komið að mikill meirihluti sóknarbarna hefur skrifað undir vantraust á séra Jón og lýst því yfir að þau vilji ekki að hann starfi lengur sem sóknarprestur í Árnesprestakalli. Er séra Jón óhæfur prestur? Eða eru aðrir kraftar að verki? Hvað sem því líður er séra Jón maður sem er staddur á miklum tímamótum.
Heimildamyndin Jón og séra Jón var ein af þeim myndum sem sýndar voru á hátíðinni Skjaldborg sem haldin var um Hvítasunnuhelgina á Patreksfirði. Steinþór Birgisson gerði myndina sem sýnd var fyrir troðfullu húsi, en allar tökur er frá þeim tíma sem séra Jón Ísleifsson bjó í Árnesi í Trékyllisvík og þjónaði Árnessókn. Áður þjónaði Jón um tíma í Sauðlauksdal. Myndin fékk góðar viðtökur og hlaut meðal annars hin eftirsóttu áhorfendaverðlaun Skjaldborgarhátíðarinnar sem besta myndin að þessu sinni, en verðlaunin eru kölluð Einarinn.
Í myndinni er einkum fjallað um baráttu séra Jóns fyrir að fá að búa áfram í Árnesi og nytja hlunnindin, eftir að hann hættir sem sóknarprestur. Sagðar eru af honum margvíslegar sögur, sannar og lognar. Glíma séra Jóns við geistleg yfirvöld og söfnuð hans í Árnessókn er þó ekki endilega í brennidepli í myndinni. Miklu fremur er athyglinni beint að persónu Jóns sjálfs og glímu hans við sjálfan sig, sérvisku sína og bresti.
Meiri umfjöllun um myndina hér.
Umfjöllun og klippa á ensku hér: