Svala Júlía Ólafsdóttir var hjá okkur í jólaviðtali í desember. Hún er alin upp og búsett á Siglufirði ásamt fjölskyldu. Hún fluttist til Reykjavíkur árið 1997 til að fara í Húsmæðraskólann og aftur árið 2004 þegar hún vann hjá fyrirtækinu Actavis í tólf ár. Hún flutti aftur ásamt fjölskyldu til Siglufjarðar árið 2016. Siglfirðingar kannast við hana úr versluninni Videoval, sem hún hefur rekið ásamt móður sinni undanfarin ár. Svala hefur einnig starfað sem umsjónarmaður orlofsbústaða VR á Siglufirði og rekur eigið fyrirtæki, Þrifatrukkinn.

Hún segir frá skemmtilegri jólahefð hvernig þau merkja alla jólapakka með númerum og draga svo miða úr skál með númeri og finna þannig pakkana.

Fleiri jólaviðtöl við íbúa í Fjallabyggð má lesa hér á síðunni.

 

Jólaviðtalið –Svala Júlía Ólafsdóttir

 

Ertu mikið jólabarn?

 Já, ég tel mig vera ágætlega mikið jólabarn.

Hvað er ómissandi á jólunum?

Samverustundir og góður matur.

Hvað kemur þér í jólaskap?

Ætli það séu ekki bara jólaskreytingarnar.

Hvaða jólalag er í uppáhaldi hjá þér?

Jól alla daga, með Eiríki Haukssyni.

Hvenær fer jólatréð upp á þínu heimili?

Það var alltaf 23. desember þegar ég var ung, en eftir að ég eignaðist börn þá fer það upp fyrr í desember en áður.

Ferðu í kirkju um jólin eða heimsækir þú kirkjugarðinn?

Nei, ég hef aldrei gert það, en það verður breyting á því í ár og munum við fara í kirkjugarðinn í ár.

Hvaða jólahefð má aldrei rjúfa?

Það er þannig að við merkjum alla pakka með númerum sem fara undir jólatréð og setjum samanbrotna miða með sömu númerum í skál og skiptumst á að draga. Svo fer dóttir mín og leitar að því númeri sem dregið var og þetta hefur verið svona síðan ég var ung og hefur haldist eftir að ég stofnaði fjölskyldu.

Verslar þú jólagjafir í heimabyggð, Akureyri, Reykjavík eða netinu?

Ég reyni að versla eitthvað í heimabyggð, en er farin að versla meira á netinu.

Horfir þú á einhverja sérstaka jólamynd til að komast í jólaskap?

Nei get ekki sagt það, en Harry Potter væri samt ofarlega á lista hjá mér.

Hvað borðar þú á jólunum?

Það er alltaf hamborgarhryggur og svo eitthvað annað með því.