Marteinn Brynjólfur Haraldsson var í jólaviðtali hjá okkur í desember, en hann er fæddur og uppalinn á Siglufirði. Matti er betur þekktur sem Matti hjá Segli67 á Siglufirði sem er fjölskyldurekið fyrirtæki. Aðrir þekkja hann úr tæknigeiranum á Íslandi, en hann hefur unnið sem tölvunarfræðingur hjá Stefnu hugbúnaðarhúsi á Akureyri frá árinu 2014. Frá 2005-2012 vann Matti í ýmsun tæknistörfum á höfuðborgarsvæðinu, meðal annars hjá 365 Miðlum, Grand Hótel og TM Software. Matti hefur frá árinu 2015 rekið Bruggverksmiðjuna Segul 67 á Siglufirði. Þar er tekið á móti gestum sem fá kynningu á verksmiðjunni og smakk allt árið um kring og á sumrin hafa verið haldnir Bjórleikar, sem er íþróttakeppni.
Matti stundaði nám í Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki á sínum yngri árum, en þá var ekki kominn menntaskóli í Fjallabyggð. Þá var hann einnig í Iðnskólanum í Reykjavík og síðar Háskólanum í Reykjavík og einnig var hann í háskólanámi í Barcelona.
Matti lék um tíma með 2. flokki Knattspyrnufélags Siglufjarðar (KS) og á skráða 6 leiki árið 2002.
Það hefur staðið lengi til að fá Matta hér í viðtal og loksins náðum við í hann. Hann svarar hér nokkrum spurningum og sínar jólahefðir. Þökkum Matta kærlega fyrir þessi góðu svör.
Fleiri jólaviðtöl má lesa hér.
Jólaviðtal – Marteinn Brynjólfur Haraldsson
Ertu mikið jólabarn?
Já eða nei, hef samt lúmskt gaman að jólunum og þá sérstaklega að fylgjast með strákunum mínum Nóa, Nökkva og Ugga. Maður upplifir jólastemninguna aftur í gegnum þá.
Hver er uppáhaldsjólaminning þín?
Við fórum alltaf til ömmu Öllu og afa Matta á aðfangadag að borða kvöldmat og opna pakka. Þar komu fjölskyldan saman og það var rosalega gaman að opna saman pakkana.
Hvað er ómissandi á jólunum?
Það er soðið brauð sem Amma Alla gerir með jólamatnum.
Hvað kemur þér í jólaskap?
Jólalögin, kirkjuklukkan, ilmurinn úr eldhúsinu og að fylgjast með spennunni hjá strákunum.
Hvaða jólalag er í uppáhaldi hjá þér?
Jólin eru að koma, með Svörtum fötum og Snjókorn falla með Ladda ásamt fleiri góðum.
Hvenær fer jólatréð upp á þínu heimili?
Við erum með gervijólatré og ætlum að halda okkur við það en yfirleitt fer það nokkrum dögum fyrir jól.
Ferðu í kirkju um jólin eða heimsækir þú kirkjugarðinn?
Ekki alltaf, en í gegnum tíðina þá hef ég farið í jólamessu. Förum og setjum kerti á leiði í kirkjugarðinum.
Hvaða jólahefð má aldrei rjúfa?
Jólasveinar og gjafir. Sælla er að gefa en að þiggja 😉
Verslar þú jólagjafir í heimabyggð, Akureyri, Reykjavík eða netinu?
Fer algjörlega eftir því hvað er verið að versla.
Horfir þú á einhverja sérstaka jólamynd til að komast í jólaskap?
Að sjálfsögðu Home Alone og Die Hard ásamt rómó myndunum Love Actually og The Holiday.
Hvað borðar þú á jólunum?
Svínakjöt og lambakjöt ásamt allskonar frábæru öðruvísi meðlæti.