Siglfirðingurinn Guðmundur Gauti Sveinsson var í jólaviðtali hjá okkur núna rétt fyrir jólin og svaraði nokkrum spurningum. Guðmundur Gauti vinnur hjá Fiskmarkaði Siglufjarðar og heldur úti hlaðvarpinu Á tæpasta vaði. Hann er giftur Katrínu Drífu Sigurðardóttur og eiga þau þrjú börn. Hann hélt úti skemmtilegu ljósmynda bloggi fyrir nokkrum árum, Skoger, og birtu miðlarnir gjarnan myndir frá honum þegar fréttir voru af höfninni á Siglufirði. Guðmundur Gauti situr nú í Hafnarstjórn Fjallabyggðar fyrir D-lista Sjálfstæðismanna.
Fleiri jólaviðtöl má lesa hér.
Jólaviðtal – Guðmundur Gauti Sveinsson
Ertu mikið jólabarn?
Ég get ekki sagt það, það pirrar mig að sjá jóladót í búðum í október og nóvember og þegar að jólalög eru spiluð í útvarpi áður en desember hefst, skipti ég um rás og á þessum tíma má segja að ég sé hálfgerður Grinch.
En þegar að desember byrjar , minnkar pirringurinn og Grinch-inn fer að hörfa fyrir jólabarninu, og er það Drífu mikið að þakka, því þá byrjar hún að baka, stelpurnar æfa svo jólalög fyrir tónleika í tónskólanum , jólahlaðborðin eru byrjuð, jólaljósin fara upp og um miðjan desember má segja að Grinch-inn sé nánast kominn í felur.
Venjulega hefur desember verið strembinn í vinnu hjá mér en þegar að vinnutörninni lýkur og jólafríið hefst, hefur jólabarnið tekið völdin .
Hver er uppáhalds jólaminningin þín?
Fallega svarið væri að segja samverustundir með fjölskyldunni en uppáhaldsminningin er þó þessi : Jólaminning
Hvað er ómissandi á jólunum?
Fyrir utan fjölskylduna og vini er ekkert ómissandi. Því þó að það vanti Nóa Síríus konfekt eða jólaöl , þá koma jólin og þá finnur maður hve mikið það gefur manni að hafa sína nánustu hjá sér.
Jólin 2012 vorum við nýorðin 4 í fjölskyldu, ég , Drífa, Jóhann Gauti 4 ára og Guðný 20 daga gömul.
Þá voru fáar sortir bakaðar, lítið skreytt, foreldrarnir vansvefta, húsið var ekki þrifið hátt og lágt né málað en líklega eru það ein bestu jól sem við höfum haldið.
Jólin 2021 vorum við fjölskyldan í sóttkví frá hádegi á aðfangadag og yfir jólin og þá fann maður hvað jólin eru mikil fjölskylduhátíð, að geta ekki hitt mömmu og pabba, Bjössa bróðir og vini okkar, sýndi mér að þó að þú fáir allt sem þig langar í og vantar, í jólagjöf, þá kemst það ekki nálægt stundunum með ástvinum.
Hvaða jólalag er í uppáhaldi hjá þér?
Ó helga nótt er mitt uppáhalds jólalag, sérstaklega flutningur Jussi Björling.
Hvenær fer jólatréð upp á þínu heimili?
Síðasta lagi 21. desember. Hjalti bróðir minn sem lést af slysförum sem barn, fæddist 22. desember og höfum við alltaf verið búin að skreyta tréið fyrir afmælisdaginn hans.
Ferðu í kirkju um jólin eða heimsækir þú kirkjugarðinn?
Hef ekki farið í kirkju lengi en við heimsækjum látna ástvini í kirkjugarðinum og kveikjum á kertum fyrir þau.
Hvaða jólahefð má aldrei rjúfa?
Að léttast ekki, því að þá hefur jólamaturinn og eftirréttirnir misheppnast hjá mér.
Verslar þú jólagjafir í heimabyggð, Akureyri, Reykjavík eða netinu?
Við reynum að versla í heimabyggð, en sumt er ekki hægt að fá heima og því leitum við til Akureyrar og á netið.
Horfir þú á einhverja sérstaka jólamynd til að komast í jólaskap?
Við höfum mjög oft horft á Home Alone myndirnar.
Hvað borðar þú á jólunum?
Við höfum haft hamborgarahrygg síðustu ár.