Edda Björk Jónsdóttir var í jólaviðtali hjá okkur í desember.  Edda er alin upp í Kópavogi en fluttist til Siglufjarðar árið 2015. Hún hefur undanfarin ár starfað á Síldarminjasafninu á Siglufirði sem sérfræðingur á sviði fræðslu og miðlunar en sönghæfileikar hennar hafa einnig nýst vel í starfinu á safninu.

Edda er sópran söngkona og er fædd árið 1987. Hún lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 2007 og BA í þroskaþjálfafræðum frá Háskóla Íslands 2014. Edda Björk hóf tónlistarnám aðeins 6 ára við Tónlistarskólann í Kópavogi. Þar lærði hún á þverflautu og spilaði hún auk þess með Skólahljómsveit Kópavogs. Árið 2007 hóf Edda Björk söngnám, fyrst í Söngskólanum í Reykjavík og síðar í Söngskóla Sigurðar Demetz. Helsti söngkennari hennar var Dóra Reyndal og lauk Edda Björk burtfararprófi undir hennar handleiðslu árið 2015. Edda hefur auk þess starfað sem útsetjari og tekið að sér ýmis verkefni fyrir kóra og minni sönghópa.

Fleiri jólaviðtöl við íbúa í Fjallabyggð má lesa hér á síðunni.

Jólaviðtalið – Edda Björk Jónsdóttir

 

Ertu mikið jólabarn?

Já ég verð að segja það. Frá því að ég man eftir mér hef ég alltaf verið mikið jólabarn, og ég hlakka alltaf mikið til jólanna.

Hver er uppáhaldsjólaminning þín?

Þær eru svo ótrúlega margar að það er erfitt að velja einhverja eina! En mér þykir mjög vænt um minningarnar af jólunum þegar móðuramma mín var á lífi, þá var hún alltaf hjá okkur á aðfangadag. Þá fór ég oft heim til hennar að hjálpa henni að hafa sig til fyrir kvöldið og svo fórum við stundum saman í kirkju áður en við fórum svo til foreldra minna. Það voru svo ljúfar stundir.

Hvað er ómissandi á jólunum?

Góður matur og samverustundir með góðu fólki. 

Hvað kemur þér í jólaskap?

Jólaljósin! Eftir að ég flutti til Siglufjarðar þá finnst mér svo æðislegt hvað fólk hér í Fjallabyggð er duglegt að skreyta. Það lífgar svo upp á skammdegið og kemur mér alltaf í gott jólaskap. 

Hvaða jólalag er í uppáhaldi hjá þér?

Þessi jólin hefur lagið Jólin, jólin (flutt af Svanhildi Jakobs) verið í sérstöku uppáhaldi. Ég hef verið svo heppin að fá að syngja á nokkrum stöðum á þessari aðventu og hef sungið þetta lag mjög oft, og það vekur alltaf lukku hjá fólki, það er svo dásamlegt eitthvað. En svo er annað lag sem ég fíla vandræðalega mikið, en það er ítalska ballaðan Þú komst með jólin til mín, ég þarf alltaf að heyra það að minnsta kosti einu sinni fyrir jólin. 

Hvenær fer jólatréð upp á þínu heimili?

Ég er alin upp við að jólatréð sé skreytt á Þorláksmessu, en það er ekki kveikt á því fyrr en kirkjuklukkurnar í útvarpinu hringja inn jólin á aðfangadag kl 18, og það er hefð sem ég hef haldið í. 

Ferðu í kirkju um jólin eða heimsækir þú kirkjugarðinn?

Alla jafna fer ég ekki í kirkju á jólunum, en í gegn um tíðina hef ég þó oft gert það. Stundum með ömmu minni þegar ég var yngri. Svo hef ég oft verið í kirkjukórum og sungið í messum á jólunum. 

Hvaða jólahefð má aldrei rjúfa?

Humarinn.. mér finnst ómissandi að fá humar í forrétt á jólunum. Það er spurning hvort það gangi eftir þessi jólin!

Verslar þú jólagjafir í heimabyggð, Akureyri, Reykjavík eða netinu?

Það er misjafnt, ég reyni að versla það sem ég get í heimabyggð, en yfirleitt panta ég eitthvað á netinu líka. 

Horfir þú á einhverja sérstaka jólamynd til að komast í jólaskap?

Það er engin ein sérstök jólamynd sem ég horfi alltaf á, en ég elska jólamyndir og horfi yfirleitt á nokkrar í aðdraganda jólanna. En mér finnst mjög gaman að hafa bíó-maraþon á jólunum, og horfa þá til dæmis á Lord of the Rings, Hobbit eða Harry Potter. Eða Star Wars. Kannski ekki beint jólamyndir, en samt ómissandi partur af jólunum!

Hvað borðar þú á jólunum?

Ég er alin upp við að borða rjúpur, og mér finnst enginn matur jólalegri. En það hefur ekki alltaf verið hægt að fá rjúpu, þá finnst mér mjög gott að borða einhverja villibráð. Og svo má ekki gleyma humrinum í forrétt!