Jólaviðtalið er að þessu sinni við Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur. Bjarkey býr í Ólafsfirði og er Alþingismaður VG í Norðausturkjördæmi síðan 2013. Hún var bæjarfulltrúi í Ólafsfirði 2006–2013. Hún starfaði einnig í veitingarekstri um árabil í Ólafsfirði. Bjarkey á þrjú börn og er gift Helga Jóhannssyni. Eitt af hliðarverkefnum þeirra hjóna og vakti landsathygli var fyrirtækið Íslensk Tónbönd sem var stofnað af þeim í nóvember 1991. Fyrirtækið framleiddi íslenskar kassettur (Hljóðsnældur) og seldi meðal annars til Ríkisútvarpsins, en einnig voru fjölfaldaðar og framleiddar spólur með efni fyrir Fílapenslana, Jólasögur með Guðmundi Ólafssyni og sögurnar Bernskubrek. Nokkrum árum síðar var geisladiskurinn orðinn allsráðandi og fyrirtækið var selt. Þetta fyrirtæki var einnar sinnar tegundar á Íslandi og var í samkeppni við erlendar innfluttar kassettur.
Bjarkey lauk kennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 2005, með áherslu á upplýsingatækni og samfélagsgreinar. Þá er hún með Diplóma í náms- og starfsráðgjöf frá HÍ 2008. Bjarkey hefur verið sýnileg á samfélagsmiðlum og í sjónvarps- og útvarpsfréttum síðustu ár. Bjarkey heldur úti skemmtilegu Bloggi, er virk á Twitter og Instagram, og er dugleg að deila með okkur myndum.
Jólaviðtal
- Hvað finnst þér best við jólin? Samveran með stórfjölskyldunni.
- Hvað kemur þér í jólaskap? Að hlusta á jólakveðjurnar á RÚV á Þorláksmessu um leið og ég legg síðustu hönd á jólaundirbúninginn.
- Hvað borðar þú á jólunum? Wellington nautasteik.
- Hvað finnst þér ómissandi að gera um jól og áramót? Að vera í náttfötunum á jóladag og lesa góða bók og svo auðvitað að horfa á Skaupið.
- Ferðu í kirkju um jólin? Stundum í miðnæturmessu á aðfangadag ef hún er í boði.
- Hvernig jólatré ertu með? Jólatré frá Skátunum.
- Ferðu á brennu um áramótin? Ekki alltaf – læt stundum duga að horfa á hana úr stofuglugganum.
Viðtalið var tekið í desember 2017, og er nú endurbirt.