Daníel Pétur Baldursson matreiðslumaður á Siglufirði var í jólaviðtali hjá okkur nokkrum dögum fyrir jól. Daníel hefur rekið veitingastaðinn Torgið á Siglufirði frá árinu 2016. Daníel útskrifaðist árið 2009 sem matreiðslumaður og vann í höfuðborginni í nokkur ár áður en hann flutti aftur til Fjallabyggðar. Hann starfaði á veitingastöðum eins og:  Vocal restaurant, Fiskbúð Hólmgeirs í Mjódd, Þremur frökkum hjá Úlfari, yfirmaður kjötborðs verslunar Nóatúns í Nóatúni og síðar Sigló Hótel. Daníel lék með yngri flokkum KS á Siglufirði og á einn meistaraflokksleik með Hvöt frá árinu 2005. Auður Ösp Magnúsdóttir er eiginkona Daníels og eiga þau þrjú börn.

Fleiri jólaviðtöl má finna hér á síðunni.

Jólaviðtal – Daníel Pétur Baldursson

Ertu mikið jólabarn? Já ég er það, hef gaman  af þessum árstíma en konan mín hún Auður er ekki á sama leveli og ég. Hún hefur gaman að jólaljósaskreytingunum og að njóta og upplifa jólin í gegnum börnin.

Skreytir þú mikið í ár? Ekkert meira en venjulega.

Hver er uppáhaldsjólaminning þín? Jólin 2012 þegar Kertasníkir skildi eftir tvo hringa í skónum mínum(Auðar).

Hvað er ómissandi á jólunum? Grafinn lax, léttreyktur lambahryggur, rjúpur og döðlurjómasalat.

Hvert er besta jólalagið? Að mínu mati kemur aðeins eitt lag til greina við þessari spurningu, Jólahjól með Sniglabandinu og Stebba Hilmars. Auður segir jólin ekki koma nema með Wham og Last Christmas.

Hvenær fer jólatréð upp á þínu heimili? Miðjan desember, en í ár fór það upp annan í aðventu.

Hverjir verða í „jólakúlunni“ þinni í ár? Fjölskyldan.

Hvernig getum við haldið í gleðina þessi undarlegu jól? Með jákvæðni, hlýju, þolinmæði og virðingu við hvort annað eru okkur allir vegir færir.

Hvaða jólahefð má aldrei rjúfa? Að opna útidyrahurðina fyrir jólunum !

Verslar þú jólagjafir í heimabyggð, Akureyri, Reykjavík eða netinu? Við versluðum í heimabyggð og í gegnum netið. Örfátt fannst þó á Akureyri.

Horfir þú á einhverja sérstaka jólamynd til að komast í jólaskap? Lord of the rings er stór partur af jólunum. Auður kýs þó væmnari mynd með Ryan sínum í Just Friends.

Hvað borðar þú á jólunum? Við hjónin komum frá mismunandi matarhefðum og ákváðum því snemma að búa til okkar venjur. Í hádeginu á aðfangadag borðum við grafinn lax, en hann er líka í forrétt hjá okkur eða humar. Svo fáum við okkur léttreyktan lambahrygg með ýmsu góðu meðlæti.

 

Daníel og Auður. Myndir úr einkasafni þeirra.