Í hádeginu mældist jarðskjálfti af stærðinni 3,3 í Eyjafjarðarál, um 20 kílómetra norðnorðaustur af Siglufirði. Þetta er á svipuðum slóðum og stóri skjálftinn sem varð 21. október og var 5,6 að stærð. Tilkynningar hafa borist um að hann hafi fundist á Siglufirði.
Skjálftinn var kl 12:12 og annar skjálfti varð 13:08 á sömu slóðum, stærð hans um þrír. Í tilkynningu Veðurstofu Íslands kemur fram að vel verði fylgst með framvindu mála.
Sigþrúður Ármannsdóttir, landfræðingur hjá Veðurstofunni, segir um eftirskjálfta að ræða. Ekki sjái enn fyrir endann á skjálftunum en þó hafi nokkuð dregið úr jarðskjálftavirkni undanfarna daga. Óvissuástand sem Almannavarnir lýstu yfir vegna jarðskjálftanna um daginn er enn í gildi.
Heimild: rúv.is