Í nemendahópi Menntaskólans á Tröllaskaga hefur síðustu ár verið töluverður hópur afreksíþróttafólks sem æfir og keppir erlendis en stundar fjarnám jafnhliða íþróttum. Einn þeirra er landsliðsmaðurinn Viktor Karl Einarsson sem í dag er leikmaður Breiðabliks í knattspyrnu en lék með AZ Alkmaar í Hollandi og IFK Varnamo í Svíþjóð meðan hann stundaði nám við MTR.

Viktor Karl segist hafa skráð sig í MTR eftir að námsráðgjafi hafi bent honum á að skólinn væri með fyrirkomulag sem hentaði honum þar sem hann var atvinnumaður í knattspyrnu erlendis.

Skipulagið hjá MTR hentaði mér rosalega vel þar sem ég var mikið á æfingum, að keppa og á ferðalagi. Námið er símat og er kennt i viku lotum sem hentaði mér vel. Það hélt mér betur við efnið að þurfa að skila verkefnum vikulega og þurfa ekki að læra fyrir 100% lokapróf þar sem tíminn var naumur til þess að einbeita sér” segir Viktor Karl.

Meðal þeirra áfanga sem hann tók í skólanum eru sérstakir áfangar fyrir afreksíþróttafólk sem Óskar Þórðarson íþróttafræðingur og annar af íþróttakennurum skólans hefur umsjón með. Í þessum áföngum fær íþróttafólk hluta af þjálfun sinni metið til náms. Fjalla um æfingar, keppnisferðir og ígrunda árangur sinn í einskonar dagbók og fá og fá endurgjöf frá kennara.

Afreksíþróttaáfangarnir hjá Óskari Þórðarsyni voru vel upp settir eins og allt námið í heild sinni. Skemmtilegt og krefjandi. Ég myndi mæla með að taka fjarnám frá MTR fyrir alla þá sem telja sig ekki hafa mikinn tíma til þess að vera í námi samhliða öðrum krefjandi verkefnum. MTR setur þetta þannig upp að þér er haldið við efnið allan tímann og áður en þú veist af er þetta allt saman búið”, segir Viktor Karl Einarsson landsliðsmaður i knattspyrnu sem útskrifaðist frá MTR 2019.

Frá þessu var greint á vef mtr.is.