Risatrefill fær nýtt hlutverk
Trefill sem prjónaður var árið 2010 og tengdi saman byggðakjarnana Siglufjörð og Ólafsfjörð við opnun Héðinsfjarðarganganna öðlast fljótlega nýtt hlutverk.
Fyrir tveimur árum fékk listakonan Fríða Gylfadóttir á Siglufirði þá hugmynd að tengja saman Ólafsfjörð og Siglufjörð með prjónuðum trefli. Fjöldi prjónafólks tók þátt í verkefninu og prjónaði bút í trefilinn sem náði frá miðbæ Siglufjarðar í gegnum Héðinsfjarðargöng og inn í miðbæ Ólafsfjarðar. Trefillinn varð 17 km langur en bútar úr honum hafa verið seldir til góðgerðamála innanlands . Nú fær trefillinn hins vegar nýtt hlutverk því hjá Iðju dagvist á Siglufirði er verið að sauma teppi úr treflinum fyrir Rauða krossinn.
Agnes Þór Björnsdóttir, starfsmaður Iðju dagvistar, segir að þetta nýtist vel því trefillinn sé úr nátúrulegri ull og teppin verði hlý. Efnið sé bara klippt aðeins til. Teppin mun Rauði krossinn senda úr landi til hrjáðra þjóða en með öllum þessum efniviði geta teppin orðið nokkuð mörg. Agnes segir að hún viti ekki hvað þau verði mörg en það sé mikið af efni úr að moða. Þetta ráðist bara af því hve fólkið sem búi þau til verði duglegt. Þetta verði því vafalaust mjög mörg teppi.
Heimild: Rúv.is