Iceland Express mun ekki bjóða upp áætlunarflug flug milli Akureyrar og Kaupmannahafnar næsta sumar eins og undanfarin ár. Ferðaþjónustuaðilar á Norðurlandi eru vonsviknir með ákvörðunina.
Iceland Express hefur síðastliðin 5 sumur boðið upp á beint áætlunarflug frá Akureyri til Kaupmannahafnar. Til stóð svo yrði einnig næsta sumar en nú hefur félagið hætt við þær áætlanir.
Að sögn, Heimis Más Péturssonar, upplýsingarfulltrúa Iceland Express, er ástæðan sú að flugfélagið vill einfalda áætlanakerfi sitt, auk þess sem flugið hefur varla staðið undir sér.
„Viðbrögð okkar eru auðvitað pínulítil vonbrigði en þetta á að þjappa okkur betur saman,“ segir Ásbjörn Björgvinsson, framkvæmdastjóri Markaðsstofu ferðamála á Norðurlandi, sem undanfarin ár hefur unnið að því ásamt ferðaþjónustuaðilum á Norðurlandi að auka millilandaflug til Norðurlands allt árið.
Hann lítur ekki á ákvörðun Iceland Express sem dauðadóm yfir beinu áætlunarflugi til Norðurlands og segir þess í stað mikilvægt að skoða aðra möguleika og segir að viðræður standi nú þegar yfir við önnur flugfélög og er vongóður um að önnur flugfélög sjái sér hag í því að fljúga beint á Akureyri.
„Vandamálið er það að Iceland Express er búið að fara í þann farveg sem Icelandair hefur verið að fara í þannig að við erum út úr þeirra flugleið. Nú erum við að ræða við aðila sem eru ekki á þessari flugleið Bandaríkin Evrópa og ætlum að finna þessa samstarfsaðila hvort sem er innanlands eða utan sem fljúga hér beint inn á svæðið og þurfa ekki að hafa áhyggjur af þessum milliflutningi milli Bandaríkjanna og Evrópu.“
Rúv.is greinir frá.