Hvalaskoðun er hafin á Húsavík. Enn sem komið er hefur þó lítið sést af hvölum á Skjálfandaflóa þótt lífríkið sé allt að taka við sér.  Yfir hásumarið verður einnig boðið upp á Hvalaskoðun frá Ólafsfirði.

Norðursigling fór í fyrstu hvalaskoðunarferð sína þann 1. apríl og Gentle Giants hefur sínar ferðir um miðjan mánuðinn.

Að sögn Harðar Sigurbjarnarsonar, framkvæmdastjóra Norðursiglingar, er ekki hægt að bjóða upp á hvalaskoðun allan ársins hring frá Norðurlandi þar sem hvalirnir leita suður yfir háveturinn í hlýrri sjó: „Það er svona að byrja að koma líf. Við erum nú ekki búnir að finna mikið af hvölum ennþá en greinilegt að vorið er að koma í Skjálfandaflóann.”

Þótt lítið annað hafi sést en hnísur er töluvert bókað í hvalskoðun um páskana og sumarið lítur einnig vel út segir Hörður: „Það svíkur engann þegar gott er veður að sigla um Skjálfandaflóa þó að hvalirnir séu ekki en auðvitað erum við fyrst og fremst á eftir þeim en þeir munu koma á næstu dögum. ”

Sumarið 2011 bauð Norðursigling í fyrsta sinn upp á hvalaskoðun frá smábænum Ólafsfirði á Tröllaskaga. Ólafsfjörður er kjörinn til hvalaskoðunar, staðsettur við mynni Eyjafjarðar, steinsnar frá þekktum hvalaslóðum. Líkt og á Húsavík hefur sjávarútvegur ávallt leikið veigamikið hlutverk í lífi Ólafsfirðinga og gamlir íslenskir eikarbátar í hvalaskoðun krydda tvímælalaust tilveru hins hefðbunda sjávarpláss. Lagt verður úr Ólafsfjarðarhöfn allt að þrisvar sinnum á dag yfir hásumarið og siglt í um það bil 3 klukkustundir. Um borð verður boðið uppá létta hressingu, leiðsögn og aukafatnað ef þess gerist þörf.

Heimild: Rúv.is

Texti: Rúv og Héðinsfjörður.is