Þegar maður keyrir frá Reykjavík til Fjallabyggðar þá er mikilvægt að stoppa á leiðinni til að hvíla bensínfótinn og viðra krakkana. Allir þekkja það að stoppa í Staðarskála eða Blönduósi fyrir mat og drykk, en óhætt er að mæla með stoppi á Brúnastöðum í Fljótum, skammt frá Ketilási. Þar hefur verið rekinn húsdýragarður síðastliðin þrjú sumur ásamt útleigu á orlofshúsum allt árið. Húsdýragarðurinn er á lóð Brúnastaða, en þar er að finna geitur, hunda, yrðlinga, kanínur, grísi og hænur. Hundarnir eru mjög vinalegir og vilja láta leika við sig og geiturnar eru einnig gæfar. Frábært að ganga með krakkana á þessu fallega svæði sem dýrin hafa á Brúnastöðum og ekki skemmir útsýnið fyrir. Garðurinn er opin frá kl. 11-18.
Staðsetningin er aðeins 22 km frá Siglufirði, skammt frá gatnamótum við Lágheiðina og Siglufjarðarveg.
Hjónin Stefanía Hjördís og Jóhannes Helgi eiga og reka Brúnastaði ásamt fjórum börnum og þremur fósturbörnum sem eru í lengri eða skemmri tíma. Einnig dvelur hjá þeim grænlenskur verknemi frá landbúnaðarskólanum í Grænlandi. Þau stunda einnig sauðfjárrækt og skógrækt.
Þau eru með tvo heilsárshús sem eru í útleigu til ferðamanna við Brúnastaði. Annað er 60 fm gestahús ásamt svefnlofti og tekur 10 manns. Stærra gestahúsið heitir Lambanes-Reykir en það er 155 fm með 5 herbergjum og tekur 10 manns í gistingu. Nánari upplýsingar um þessi hús má finna á vef Brúnastaða.