Hundar hafa verið hluti af meðferð á geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri frá árinu 2017. Í dag er það hann Leó Þórsson Anítuson sem sinnir meðferðinni. Hans helstu bækistöðvar eru í Seli í dagþjónustunni. Leó er níu ára gamall labrador og kom hann til okkar árið 2018. Faðir hans sinnti svipaðri meðferð á Kleppi. Hann var kallaður Kóngurinn á Kleppi og hlaut viðurkenningu hjá HRFÍ fyrir sín störf þar.

Helstu kostir Leós eru þættir eins og einlægur áhugi á mat og á högum annarra, sjálfsþekking og vitund, framtíðarsýn og hugsjón og ber hann ábyrgð á sínum verkefnum. Hann er viljugur til að þjóna og sýnir auðmýkt í starfi og kemur fram við aðra á jafningjagrundvelli. Hans helstu verkefni innan deildarinnar eru að hlúa að fólki og leggur hann sitt af mörkum þegar kemur að geðrækt.

Helsti styrkleiki Leós er núvitund. Mannfólkið er óþarflega mikið statt í fortíð og framtíð sem vekur oft upp hugsanir og tilfinningar sem það gjarnan gengur inn í og skapar vanlíðan. Leó er hinsvegar ötull í því að vera staddur í núinu og hjálpar fólki með að gera slíkt hið sama með nærveru sinni, klappi, knúsi og leik bæði í hópastarfi og á einstaklingsgrundvelli. Hann fer með fólk í göngutúra og styrkir það í að njóta nátturunnar og hreyfa sig, fer í heimsóknir í Grófina þar sem hann er alltaf velkominn og stundum á kaffihús. Dæmi eru um að fjölskyldur inniliggjandi einstaklinga hafi komið og farið með Leó í göngutúra. Starfsfólk sem hefur átt erfiðan dag í vinnunni hefur stundum komið og tekið núvitundaræfingu með Leó.

Leó hefur eflt þjónustustig deildarinnar með nærveru sinni. Hann mætir alltaf glaður til vinnu og sýnir það með líkamstjáningu í formi hoppi og skoppi. Hann á orðið nokkra staði í húsinu þar sem leynist nammi og veit alveg hvar það er og hverjir eru líklegir til að gefa honum eitthvað að borða.  Hann hefur hlotið viðurkenningu sem starfmaður ársins á geðdeildinni.

texti: sak.is