Nú um nokkurn tíma hefur undirbúningshópur unnið að stofnun Hollvinasamtaka Heilbrigðsstofnunar Fjallabyggðar ( HVSF ) Í hópnum eru bæði íbúar Fjallabyggðar og brottfluttir. Kveikjan að stofnun samtakanna er einlægur áhugi á að efla og styrkja þessa mikilvægu stofnun og leggja því lið að áfram verði starfrækt góð og öflug heilbrigðisþjónusta í Fjallabyggð. Slík samtök eru starfrækt víða um land og hafa víðtækt hlutverk, ekki bara að veita heilbrigðistofnunum fjárhagsstuðning þegar á þarf að halda heldur einnnig að veita stjórnendum stofnananna stuðning og hvatningu í ýmsum framfara – og hagsmunamálum.
Undirbúningshópurinn leitað eftir ráðleggingum frá m.a. Hollvinasamtökum Sjúkrahússins á Seyðisfirði og Hollvinasamtökum Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi. Hollvinasamtök víðsvegar um landið hafa gjarnan starfað með öðrum félagasamtökum sem láta sig samfélagið varða. Komið hefur verið á góðu samstarfi við Siglfirðingafélagið í Reykjavík og undirbúningshópurinn vonast eftir góðu samstarfi við Kvenfélag Sjúkrahússins sem í gengum áranna rás hefur unnið mikið starf á þessum vettvangi. Væntanlega verður leitað til fleiri félagasamtaka sem starfa í Fjallabyggð og eru forsvarsmenn hvattir til að setja sig í samband við undirbúningshópinn ef áhugi er fyrir hendi.
Það er von undirbúningshópsins að sem flestir íbúar Fjallabyggðar, sem og brottfluttir Ólafsfirðingar og Siglfirðingar gerist félagsmenn í samtökunum. Árgjaldi verður mjög stillt í hóf og verður það grunnurinn að þeim sjóði sem nýttur verður til góðra verka. Nú þegar hafa borist framlög frá félagasamtökum til undirbúnings stofnunar samtakanna. Reikningur hefur verið stofnaður í Sparisjóði Siglufjarðar og lögð drög að samþykktum samtakanna.
Fyrirhugað er að stofnfundur samtakana verði haldinn í Reykjavík í lok maí og stuttu síðar verður haldinn framhaldsstofnfundur í Fjallabyggð. Fundirnir verða auglýstir í fjölmiðlum og á vefsvæðum sem láta sig varða málefni Fjallabyggðar.
Heimili og varnarþing Hollvinasamtaka Heilbrigðisstofnunar Fjallabyggðar verður í Fjallabyggð og talsmaður undirbúningshópsins er Theodór Júlíusson leikari, sími 664-0409 theodor@borgarleikhus.is