Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar hefur óskað formlega eftir samstarfi við stjórnvöld og Landsamband hestamannafélaga um að Hólar í Hjaltadal verði gerður að þjóðarleikvangi íslenska hestsins. Sú umgjörð sem þar hefur verið sköpuð er einstök á heimsvísu og öll uppbygging í fortíð, nútíð og framtíð mun nýtast Háskólanum á Hólum, styrkja stöðu hans og festa enn frekar í sessi. Í fundargerð Byggðarráðs Skagafjarðar kemur fram:

“Byggðarráð vill jafnframt ítreka að tryggja þarf sjálfbærni í gæða- og rekstrarmálum skólans. Auka þarf rekstrarfé til skólans og tryggja rekstrargrundvöll hans til framtíðar. Taka þarf af uppsafnaðan halla sem safnast hefur upp á undanförnum árum meðal annars vegna þess að fjárframlög til skólans hafa ekki verið í samræmi við rekstrarforsendur og veita þar með skólanum andrými tl framþróunar. Styrkja þarf net opinberu háskólanna en háskólanetið er ein af forsendum samstarfs háskólanna á Íslandi og lykilþáttur í samstarfi þeirra í milli.

Byggðarráð skorar á ráðherra að setja af stað vinnu við að skoða allar mögulegar útfærslur með það að markmiði að styrkja Háskólann á Hólum sem sjálfstæða menntastofnun og tryggja til framtíðar að yfirstjórn og umsjón haldist í Skagafirði.”

Hóladómkirkja