Sem kunnugt er, er nú unnið að eflingu samstarfs opinberu háskólanna fjögurra, þ.e. Háskólans á Hólum, Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands.
Nýlega var skrifað undir samning milli skólanna um gagnkvæman aðgang nemenda að námskeiðum við þessa skóla. Þetta hefur reyndar verið opið fyrir nemendur undanfarin ár, a.m.k. í sumum námsbrautum, en nú er þetta formlega viðurkennt.
Samningurinn tekur gildi í janúar 2012 og munu nemendur geta skráð sig í námskeið við annan opinberan háskóla án þess að greiða nein viðbótargjöld og án þess að móttökuskólinn setji almenn takmörk á fjölda eininga, sem gestanemandi tekur með þessum hætti.
Nemendur þurfa þó að leita til síns heimaskóla áður en skráning í námskeið fer fram, til að tryggja að þau fáist metin til viðkomandi prófgráðu. Nemendur verða hvattir til að nýta sér þennan valkost og námsnefndir munu skilgreina námskeið sem þær mæla með við aðra skóla.
Í tilkynningu frá menningar- og menntamálaráðuneytinu er bent á að skólarnir muni í framtíðinni geta nýtt samninginn til að hagræða í námsframboði sínu, með því að sameina námskeið þvert á skóla og samkenna þau með hjálp fjarkennslutækni.
www.holar.is