HSN á 10 ára starfsafmæli í dag, en stofnunin varð til við sameiningu heilbrigðisstofnana á Norðurlandi þann 1. október 2014. Stofnunin varð til við sameiningu Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga, Heilsugæslunnar á Akureyri, Heilsugæslustöðvarinnar á Dalvík, Heilbrigðisstofnunar Fjallabyggðar, Heilbrigðisstofnunar Sauðárkróks og Heilbrigðisstofnunar Blönduóss.

Sameiningin hefur leitt til jákvæðra breytinga og hagræðingar hvað varðar aukna samvinnu og fagleg samskipti á milli heilbrigðisstofnana á Norðurlandi.  Mun auðveldara er að halda úti öflugri upplýsingatækni sem er í rauninni forsenda þess að vinna vel saman yfir stórt landsvæði. Þá fylgdi sameiningunni veruleg samlegð í símenntun starfsfólks sem jók mjög á möguleika á samstarfi og öflugri endurmenntun sem hefur leitt til nýrra og uppbyggilegra verkefna á heilbrigðissviði.

HSN sinnir stóru landsvæði allt frá Blönduósi í vestri til Þórshafnar í austri sem telur um 38.000 íbúa, en stofnunin rekur 18 aðskildar starfseiningar í um 40.000 fermetrum af húsnæði. Þetta er stór vinnustaður, en á HSN starfa 625 starfsmenn í 455 stöðugildum. Alls 120 hjúkrunarfræðingar, 95 sjúkraliðar og 55 læknar í 45 stöðugildum. Þá eru ótalin störf ómissandi aðila í sálfélagsþjónustu, iðju- og sjúkraþjálfun og aðhlynningu, auk starfa þeirra sem sinna stoðþjónustu af ýmsum toga. Í dag eru 12-13 læknar í sérnámi í heimilislækningum hjá HSN.

HSN á að jafnaði í um 1000 samskiptum við íbúa Norðurlands á hverjum degi og starfsfólk í heimahjúkrun skráir t.a.m. um 80.000 samskipti við þjónustuþega á hverju ári. Búast má við að læknar stofnunarinnar fari í 2-3 bráðaútköll með sjúkrabíl á hverjum degi, en á starfssvæðinu eru tíu læknar alltaf á bundinni vakt til að bregðast við slysum eða veikindum íbúa. Þegar alvarlegt slys varð í Öxnadal í sumar mættu 8 læknar  og 5 hjúkrunarfræðingar frá HSN á slysstað frá þremur starfsstöðvum.

Almennt hefur Heilbrigðisstofnun Norðurlands notið velvilja stjórnvalda í þessi 10 ár og fengið auknar fjárheimildir til að auka og bæta þjónustu. Sérstaklega má nefna fjölgun starfsfólks á Akureyri þar sem staða heilsugæslunnar þar var afskaplega veik fyrir 10 árum. Stofnunin hefur rekið aðhaldssama stefnu í fjármálum og hefur rekstur hennar að jafnaði verið í jafnvægi.

Heilbrigðisstofnun Norðurlands er lykilstofnun í samfélaginu. Hún hefur þann megintilgang að skapa góðan ramma utan um gott starfsfólk, hvers hlutverk er svo að veita íbúum öfluga heilbrigðisþjónustu sem stuðlar að vellíðan og heilbrigði þeirra.