Síldarárin á Siglufirði

Siglfirðingar tala oft um tvö landnám Norðmanna, hið fyrra er Þormóður rammi nam Siglufjörð um 900 og hið síðara árið 1903 sem leiddi til þess að hér byggðist frægasti síldarbær í heimi. Að 40 árum liðnum var lítið þorp orðið að fjórða stærsta bæ landsins með yfir 3000 íbúa. Atvinna og líf fólksins snerist um síldina, hún var söltuð á 23 söltunarstöðvum og brædd í 5 verksmiðjum. Lengst af var Siglufjörður einhver mikilvægasta höfn landsins og nokkrum sinnum fór síldar-útflutningur héðan yfir 20% af heildarútflutningi íslendinga.
Í þessum Klondyke Atlantshafsins ríkti hin sanna gullgrafarastemning síldarævintýrisins. Síldar-spekúlantar komu og fóru, ýmist vellauðugir eða blásnauðir og verkafólk í tugþúsundatali sótti hingað atvinnu í gegnum tíðina. Í brælum lágu hundruð síldarskipa frá mörgum löndum í höfn eða úti á firði.  Fólksmergðin í bænum var stundum eins og á strætum stórborga og óvíða var mannlífið litríkara eða fjörugra.
Síldin hvarf 1968 og þá lauk síldarkaflanum í sögu staðarins. Síðan hafa skipst á skin og skúrir í atvinnulífi bæjarins og gengi sjávarútvegsfyrirtækja risið og hnigið á víxl.
Árið 1994 var opnað á Siglufirði safn til minningar um þennan mikilvæga tíma í sögunni. Síldarminjasafnið er landssafn um sögu síldarútvegsins á Íslandi.
Texti: www.vegagerdin.is