Greinar & fróðleikur

http://www.siglfirdingur.is/v.asp?page=251&Article_ID=294 Grein um ábúenda á Héðinsfirði.

Skýrsla frá Vegagerðinni um notkun steypu í Héðinsfjarðargöngum

Greinargerð(frá 1996) um snjóþyngsli og snjóflóðahættu í Héðinsfirði.

Úrskurður Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Héðinsfjarðarganga (2001)

Skipulagsstofnun: Jarðgöng og vegagerð á Norðanverðum Tröllaskaga (2001)

Alþingi: Jarðgöng milli Siglufjarðar og Fljóta (2016)

Héðinsfjörður og Hvanndalir ­ og gönguferð þangað 1994

Eftir SVEINBJÖRN SIGURÐSSON

Héðinsfjörður og Hvanndalir

Utarlega á Tröllaskaga er Héðinsfjörður þar sem byggð lagðist af 1951 og enn utar eru Hvanndalir þar sem búið var til 1896. Á þessar afskekktu og fáförnu slóðir fór hópur göngufólks á næstsíðasta sumri.

Fyrir tveimur árum kom upp sú tillaga í hafnfirska gönguklúbbnum Ganglerum þar sem ég er félagi að fara gönguferð til Héðinsfjarðar og dvelja þar í nokkra daga. Gönguklúbburinn hefur það á stefnuskrá sinni að fara alltaf eina ferð á sumri í óbyggðir eða þar sem byggð hefur áður verið en er nú komin í eyði. Þar sem ég er ekki með öllu ókunnugur á þessum slóðum var ég tilnefndur til að sjá um ferð þangað. Afi minn Stefán Björnsson frá Stór-Holti í Fljótum og amma mín Stefanía Stefánsdóttir frá Uppsölum í Skagafirði höfðu búið í Héðinsfirði á fyrri hluta aldarinnar og svo hafði ég komið þar áður. En áður en ferðasagan verður rakin skulum við aðeins líta til fortíðar og staðhátta í Héðinsfirði.

Skaginn á milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar er nefndur Tröllaskagi. Þetta er einn hrikalegasti hluti Íslands. Inn í hann skerast langir og djúpir dalir. Milli þeirra eru há fjöll með hvassbrýndum hamrabrúnum og tindum. Um skörð liggja leiðir milli dalanna, en þau eru brött og erfið yfirferðar og sum aðeins fær gangandi mönnum enda liggja þau í mikilli hæð, 600-900 metrum. Yst á skaganum gengur Héðinsfjörður inn í þennan skaga og til sitt hvorrar handar eru Siglufjörður að vestan, en Ólafsfjörður að austan. Inn af þessum fjörðum ganga stuttir dalir, en fjöll beggja vegna þeirra ganga standberg í sjó fram. Áður en kom til vegagerðar með allri þeirri tækni sem henni fylgir var varla um nokkrar aðrar samgöngur að ræða en af sjó og yfir hin háu og bröttu fjallaskörð. Fyrr var byggð í öllum þessum fjörðum, en þegar kom fram á þessa öld breyttust aðstæður. Þéttbýli tók að myndast á Siglufirði og Ólafsfirði, en byggð lagðist af 1951 í Héðinsfirði þegar síðasti ábúandinn, Sigurður Björnsson ásamt móður sinni Önnu Lilju Sigurðardóttur og systkinum hans, fluttu þaðan burt frá Vík, en þá höfðu þau búið ein í Héðinsfirði síðan 1949.

HÉÐINSFJÖÐUR

Héðinsfjörður er talinn vera um fimm kílómetrar á lengd og um einn kílómetri á breidd nærri fjarðarbotni. Er stefna hans suðvestur-norðaustur. Báðum megin fjarðarmynnis ganga sæbrött fjöll í sjó fram, Hestfjall að vestan (536m) og Hvanndalabyrða að austan (624m). Inn frá fjarðarbotni gengur um sex kílómetra langur dalur er skiptist að lokum í tvennt. Heitir vestari hlutinn Ámárdalur. Fyrir fjarðarbotni er um fimmhundruð metra breitt eiði er nefnist Víkursandur. Þar fellur ósinn úr Héðinsfjarðarvatni til sjávar. Vatnið, sem er allstórt, prýðir mjög dalinn. Það er tveir kílómetrar á lengd og tæpur kílómetri á breidd, er neðst í dalnum og nær milli hlíða. Góð silungsveiði er í vatninu og einnig í ánni sem liðast milli starengja og fellur út í vatnið skammt fyrir framan bæinn Vatnsenda. Meðan byggð var í Héðinsfirði var meiri veiði í vatninu en er nú. Þá sótti fólkið silung í vatnið þegar vantaði fiskmeti í matinn. Silungurinn var bókstaflega geymdur í vatninu og veiddur þegar þurfti á honum að halda. Eins og fyrr segir voru samgöngur við Héðinsfjörð mjög erfiðar. Allt umhverfis dalinn gnæfa snarbrött, hömrum girt fjöll við himin, en milli þeirra liggja þröng fjallaskörð. Um þau eða sjóleiðina urðu menn að fara þegar skreppa þurfti til næstu byggða.Til Ólafsfjarðar var um þrjár leiðir að ræða, yfir Rauðskörð milli Víkurdals og Ytri-Árdals í Ólafsfirði, um Fossabrekkur í Syðri-Árdal niður að Kleifum og Sandskarð um Skeggjabrekkudal. Tvær leiðir voru farnar til Siglufjarðar, um Hólsskarð milli Ámárdals og Hólsdals og Hestskarð en þá er komið ofan í Skútudal. Þrjár þessara leiða voru færar með stórgripi, Sandskarð, Hólsskarð og Hestskarð. Að sumarlagi eru þessar leiðir hindrunarlausar en því hættulegri að vetrarlagi sökum snjóflóða og harðfennis, enda hafa margir endað þar líf sitt eins og sagnir herma.

Sennilegt er talið að byggð hafi hafist í Héðinsfirði strax á landnámsöld. Landnámabók greinir frá landnámsmönnunum Þormóði ramma í Siglufirði og Ólafi bekk í Ólafsfirði. Í sömu heimild segir að þeir Ólafur og Þormóður hafi deilt um Hvanndali og tókust ekki sættir með þeim fyrr en Þormóður hafði vegið sextán menn. Heimildir geta þess að byggð hafi oft lagst í eyði í Héðinsfirði sökum farsótta og harðinda en hafist fljótlega aftur við batnandi árferði. Hólastóll eignaðist dalinn snemma og nýttu Hólamenn hlunnindi hans, einkum rekann og sumarbeit fyrir geldneyti. Þrátt fyrir þetta munu oftast hafa verið fimm til sex bæir í byggð þótt vitað sé um fleiri er voru byggðir um stundarsakir. Á 19. öld var jafnan búið á bæjunum Vík, Vatnsenda, Grundarkoti, Möðruvöllum og Ámá. Samkvæmt manntalsbókum voru þá fjörutíu til fimmtíu manns heimilisfastir í dalnum. Mestur búskapur var í Vík sem stendur við fjörðinn austanvert. Þar var jafnan tvíbýli og mannmargt, fimmtán til tuttugu manns. Og við Vík var aðallendingin, en það sem háði Héðinsfirðingum mest var hversu lendingarskilyrði voru slæm og sjósókn því miklum erfiðleikum bundin. Byggðin hafði þó margt til síns ágætis á meðan búið var þar á forna vísu. Þar er gróðursæld mikil og ýmis hlunnindi önnur til lands og sjávar.

SNJÓFLÓÐ OG SLYS

Þegar minnst er á Héðinsfjörð reikar hugurinn aftur til vordaga ársins 1947 þegar eitt mesta flugslys á Íslandi varð þar er áætlunarflugvél frá Reykjavík til Akureyrar með tuttugu og fimm manns innanborðs lenti í Hestfjalli við Vogatorfur í svarta þoku og fórust þar allir sem með flugvélinni voru. Þetta er eiginlega eini staðurinn í fjallinu þar sem flugvélarflakið gat stöðvast því alstaðar annarstaðar eru þverhníptir klettar niður í sjó.

Eins og allir vita er utanverður Tröllaskagi einn snjóþyngsti hluti landsins. Þar getur sett niður fádæma mikinn snjó og eftir norðan stórhríðar, sem vara oft í marga daga, sitja snjóhengjur uppi í fjallshlíðunum fyrir ofan bæina sem geta farið á stað þegar minnst varir og fallið yfir menn og skepnur. Á tæplega 200 árum (1725-1919) fórust 12 menn í snjóflóðum og er það hár tollur á ekki stærri byggð. Miklir mannskaðar urðu í snjóflóðum í vikunni fyrir páska árið 1919, bæði við Siglufjörð og í Héðinsfirði. En þá fór snjóflóð á síldarverksmiðju Gustav Evangers norsks athafnamanns, sem stóð austan fjarðar í Siglufirði, og tvö íbúðarhús sem búið var í, síldarhús Olavs Evangers ásamt bryggjum og síldarplönum. Einnig tók flóðið tvo bæi, Neðri-Skúta og Bensabæ, en í þeim báðum var búið. Öll þessi mannvirki sópuðust út á sjó. Snjóflóðið gekk þvert yfir fjörðinn, þeim megin sem Siglufjarðarbær er og mölbraut þar margar bryggjur og báta. Þarna fórust alls níu manns í þessu eina snjóflóði. Talið er að sama dag hafi fallið snjóflóð á bæinn í Engidal en hann er einn af Dalabæjunum vestan Siglufjarðar. Þar fórst Margrét Pétursdóttir, ekkja Garíbaldar Einarssonar, ásamt fjölskyldu sinni, alls sjö manns. Sama dag og snjóflóðin féllu í Siglufirði, féllu tvö snjóflóð í Héðinsfirði. Þar fórust tveir menn. Á Sandvöllum vestan óss voru beitarhús frá Vík. Þar voru þrír menn að sinna gegningum sauðfjár. Einn af þeim var afi minn, Stefán Björnsson bóndi í Vík. Páll Þorsteinsson, sem var einnig bóndi í Vík, hafði farið nokkuð á undan hinum með heypoka á baki. Þeir voru að leggja af stað, er snjóflóð kom fram af svokölluðum Kleifum sem eru Víkurmegin austan fjarðar. Varð Páll fyrir því, barst með því fram á sjó og fórst þar. Einnig féll snjóflóð á Ámá sem er framar í firðinum þennan dag. Þar fórst Ásgrímur Erlendsson, mágur Páls. Í þessari páskaviku árið 1919 fórust alls átján manns í snjóflóðum í þessum byggðum á Tröllaskaga.

En oft skall hurð nærri hælum er menn voru að fara yfir skörðin til að afla nauðþurfta og sækja læknishjálp. Sem dæmi um slíkt tilvik er eftirfarandi kafli úr bókinni Íslenskar kvenhetjur eftir Guðrúnu Björnsdóttur frá Kornsá, en þar segir frá ferð Jakobínu Stær ljósmóður í Siglufirði er hún fór yfir Hestskarð að vetri til, en hún þjónaði einnig Héðinsfirði. “Eitt sinn lá við að Jakobína og förunautar hennar slyppu ekki lífs yfir Hestskarð. Fönn hafði kyngt niður dag eftir dag. En í sama mund og upp stytti, lagðist kona á sæng í Héðinsfirði. Sýnilega var varasamt að fara yfir fjallið vegna snjóflóðahættu en aðra leið var ekki hægt að komast. Eftir nokkra ráðstefnu lögðu þó tveir gætnustu og færustu bændurnir úr Héðinsfirði af stað til þess að sækja ljósmóðurina. Þeir komust klakklaust yfir, en sáu, að snjóhengjan lá þannig á Hestskarði að hættan var sívaxandi á, að hún springi fram þá og þegar. Þegar þeir komu að Saurbæ í Siglufirði sögðu þeir Jakobínu Stær allt eins og var, ­ hvað hættan væri mikil og þau tefldu öll lífi sínu í tvísýnu með því að fara yfir fjallið, en líka væri von um að sleppa með því að gæta sérstakrar varfærni. Þeir vildu samt ekki biðja hana að fara eins og útlitið væri, en legðu allt á hennar vald.- “Ef við förum ekki teflum við lífi konunnar og barnsins í hættu,” sagði hún og fór þegar að tygja sig. Engum tíma mátti eyða og hröðuðu þau sér af stað og gátu notað skíði að skarðinu. Hengjan var nú enn ískyggilegri en áður, og brekkan svo snarbrött, að hún stóð með manni. ­ Þau stönsuðu augnablik áður en þau lögðu í hana, ­ blésu mæðinni, ­ og gerðu bæn sína ­ og fylgdarmennirnir lögðu ráðin á. Svo brött sem brekkan var, mátti til með að fara hana beint upp. Væri hún skásneidd var meiri hætta á, að hún springi fram. Þau yrðu að fara hvert á eftir öðru í sömu förin og tengja sig saman með reipi. Stranglega tóku þau vara á því að tala á meðan þau voru á leiðinni upp og allra síst að kalla. Jafnvel hljóðöldur gætu riðið baggamuninn og sprengt hengjuna. Þarna klöngruðust þau upp steinþegjandi og hnitmiðandi hvert spor með sem jöfnustum hraða. Og tæpara mátti það sannarlega heldur ekki standa, því að um leið og þau stönsuðu á hábrúninni á Hestskarði ­ sennilega hefur eitthvert þeirra stappað þar af sér ­ sprakk hengjan og ógurlegt snjóflóð æddi niður hlíðina með dunum og dynkjum.­ Svo djúp áhrif hafði þetta á ferðafólkið, að þau féllu öll á kné sem einn maður og þökkuðu guði.”

HVANNDALIR

Út með ströndinni að austan, norð-austan við Vík, rís all hátt fjall, Víkurbyrða (806m) Landssvæðið undir Víkurbyrðunni meðfram sjónum er kallað Víkurströnd. Enn norðar er Músardalur smádalverpi. Þá taka við Hvanndalaskriður, illfærar mönnum og skepnum, en var þó helsta leiðin á landi milli Hvanndala og Héðinsfjarðar meðan búið var í Hvanndölum. Austan þeirra eru Hvanndalir.

Hvanndalir eru þrjú daladrög. Yst er Hvanndalur, út úr honum að sunnan er lítið dalhvolf sem nefnt er Selskál og syðst Sýrdalur sem er grynnstur, aðeins slakki niður á bakvið Hvanndalabjarg. Við efri enda Sýrdals er lítil gjá eða einskonar hlið sem farið er um úr aðaldalnum. Þar var fyrir löngu gerður grjótgarður sem lokaði alveg fyrir þennan hömrum girta dal. Voru þar áður fyrr meðan ennþá var byggð í Hvanndölum, geymd fráfærnalömbin og var þetta því einskonar afréttur og grjótgarðurinn sem afréttargirðing, líklega sú stysta á landinu. Austan við Hvanndali og vestan Ólafsfjarðar er Hvanndalabjarg 775 m hátt þverhnípt standberg í sjó fram. Einn bær var í Hvanndölum. Lagðist hann í eyði 1896. En lengi hafði þá gengið skrykkjótt með byggð þar, sem ekki var að furða, því að óvíða á landinu munu hafa verið afskekktari bæir. Eldri bæjarrústir eru á bakkanum sunnan við ána. Heitir þar Ódáinsakur. Þar voru talin vaxa lífgrös og sá sem þeirra neytti gat ekki dáið. Bærinn var því fluttur á annan stað vegna þess að menn töldu sig ekki geta búið við slík örlög.

Árið 1896 keypti hreppsnefnd Hvanneyrarhrepps jörðina af bóndanum í Hvanndölum til þess að útiloka byggð þar. Um áratug síðar var jörðin seld Jóni Guðmundssyni hreppsstjóra á Syðri-Á í Ólafsfirði. Jörðin var þá notuð til heyskapar og beitar fyrir sauðfé, en þarna er ákaflega grösugt og kjarngott hey. Meðan á heyskap stóð, var legið við í tjöldum og erfitt hefur sennilega oft verið að flytja heyið þaðan, háir bakkar niður í fjöru og ekki hægt að lenda af sjó nema í blíðu veðri.Nú er jörðin í eigu Jóns Árnasonar á Syðri-Á, en hann er sonarsonur Jóns Guðmundssonar. Þekkt er þjóðsagan um “Konuna í Hvanndalabjörgum” en hún varð Jóni Trausta að yrkisefni, þar stendur meðal annars:

Há eru og hrikaleg Hvanndalabjörg.

Þar eiga bergtröllin heimkynni hörg.

Rísa gegn norðrinu risaleg fjöll.

Hvergi eru meiri og magnaðri tröll.

Það þurfti hörku og þrautseigju að búa á slíkum stað sem Hvanndölum. Margar sagnir eru að finna um baráttu fólks fyrir lífi sínu fyrr á tímum þar sem það bjó við afar erfiðar aðstæður. Í tímaritinu Súlum 1976 er eftirfarandi frásögn eftir Helgu Ásgrímsdóttur frá Ámá um hetjudáð móður hennar sem bjó á Hvanndölum, skráð af Eiríki Sigurðssyni. “Afi minn hét Einar Ásgrímsson og amma mín Guðrún Þórarinsdóttir. Þau bjuggu í Hvanndölum á árunum 1854-1859 Síðasta vorið, sem þau bjuggu í Hvanndölum fór afi á hákarlaveiðar eins og þá var venja, en amma var ein heima með barnahópinn. Yngst barnanna var Guðlaug móðir mín, sem þá var aðeins níu mánaða gömul. Eina nóttina þetta vor slokknaði eldurinn á Hvanndalaheimilinu. Engin ráð voru að kveikja eld, nema sækja hann til næsta bæjar. Engin matbjörg til nema hrár matur. Ómögulegt að segja hvenær Einar bóndi kæmi heim úr veiðiferðinni. Líf barnanna lá við að náð væri í eld og það hið skjótasta. En hver átti að sækja eldinn? Börnin öll kornung og enginn fullorðinn á heimilinu nema húsfreyja ein. Hún átti ekki um neitt að velja, hún varð að fara sjálf hvað sem tautaði. Eina leiðin, sem til til greina kom voru Hvanndalaskriðurnar undir hrikaháu hengiflugi og um lífshættulega forvaða að fara. Þá tók hún yngsta barnið, móður mína, níu mánaða gamla og bar það í pilsi til Héðinsfjarðar. Hin börnin skildi hún eftir. Um annað var ekki að ræða. Tvívegis varð hún að vaða fyrir forvaða og sjórinn náði henni í brjóst. Þá batt hún pilsið með barninu í um háls sér til þess að það blotnaði ekki. Og heilu og höldnu komst hún til Víkur í Héðinsfirði. Þar fékk hún eld. Amma mín rómaði móttökurnar, sem hún fékk í Vík hjá Birni bónda Skúlasyni og húsfreyju hans. Björn flutti ömmu og eldinn á báti til Hvanndala og lífi allra var borgið.”

FERÐASAGAN

Ferðaáætlunin var í stórum dráttum sú, að við ætluðum að ganga frá Siglufirði yfir Hestskarð til Héðinsfjarðar, dvelja þar í nokkra daga og ganga svo þaðan yfir Rauðskörð til Ólafsfjarðar. Við höfðum bækistöð í Ólafsfirði og vorum komin þangað að kvöldi 22. júlí. Við vorum þrettán sem ætluðum að leggja upp í þessa ferð. Áður en gengið var til náða fórum við í gegnum Múlagöng og út á “Planið” eins og Ólafsfirðingar kalla hæsta hluta vegarins norðan í Múlanum. Þar var frábært útsýni, Hvanndalabjarg í vestri, Gjögrarnir í austri og Grímsey beint í norðri. Með sjónauka sást byggðin í eynni nokkuð vel. Frá þessum stað nýtur miðnætursólar mjög vel í júní, en í þetta sinn vorum við of seint á ferðinni til að njóta hennar. Gamli vegurinn utan í Múlanum var greiðfær og fórum við hann til baka. Jón Ólafsson frændi minn í Ólafsfirði sá um alla skipulagningu í Ólafsfirði, útvegaði svefnstað í Gagnfræðaskólanum og bát til Héðinsfjarðar með tjöld og annan viðlegubúnað. Veðurútlit var gott og ládauður sjór en það þurfti að vera svo að hægt væri að lenda á báti við sandinn í Héðinsfirði.

Laugardagurinn 23.júlí var tekinn snemma, bakarinn ræstur út og farið í bakaríið og keypt ný brauð og farangri komið um borð í bátinn. Til þess að þurfa ekki að skilja bílana eftir á Siglufirði, fórum við með rútu þangað. Eftir að hafa gert stuttan stans í Engidal við minnisvarðann um þá sem fórust þar í snjóflóðinu 1919, var ekið inn í Skútudal, bakpokar axlaðir, sem höfðu lítið annað að geyma nema göngunesti til ferðarinnar og lagt var á brattann. Logn og léttskýjað var og þurfti fólk að fækka fötum fljótt. Þegar komið var upp fyrir brekkubrúnina, blasti við sjálft Hestskarðið og skálin undir skarðinu full af snjó. Ég hafði farið þarna um áður og vissi að þarna átti að vera rudd gönguslóð í krákustígum alveg upp í skarð. Aðeins sást móta fyrir henni undir snjónum og skásneiddum við hlíðina eins og hún lá. Snjórinn var mátulega mjúkur til að gera spor í hann, en ekki mátti detta því erfitt gat verið að stöðva sig í brekkunni. Allir komust upp áfallalaust og við blasti dýrðlegt útsýni úr skarðinu sem er í 593m hæð. Þegar litið var til baka til vesturs, sást vel upp í Siglufjarðarskarð og gamli vegurinn um það. Til austurs blasti við ytri hluti Héðinsfjarðar, vatnið og fjöllin austan þess, Víkursandur og veiðihúsið á tanga sem skagar út í vatnið og upp af sandinum Víkurhyrna, utar Víkurdalur með Víkurhólunum sem fylla næstum dalbotninn. Undir Víkurhólunum er bæjarstæðið í Vík en á því stendur nú björgunarskýli Slysavarnafélagsins. Yfir dalsmynninu gnæfði Víkurbyrðan. Bak við hana eru Hvanndalir.

Við dvöldum góða stund uppi í Hestskarðinu áður en við renndum okkur niður skaflinn sem var í skálinni Héðinsfjarðarmegin. Það var drjúg leið þar til við komum niður úr urðinni fyrir neðan snjóinn og tókum upp nestið og nutum útsýnisins. Báturinn með farangurinn var að koma inn fjörðinn svo að ekki skeikaði miklu um tímann sem við áætluðum í gönguferðina. Mikill gróður var á leið okkar niður hlíðina eins og við áttum eftir að sjá síðar á leið okkar um fjörðinn. Þarna var meðal annars grasvíðir og nokkrar tegundir burkna, skrautpuntur sem er stærsta grastegund landsins auk aðalbláberjalyngsins sem þakti brekkurnar.

Þegar við komum að ósnum var greinilegt að hann var varla væður vegna hlýinda og snjóbráðar á undangengnum dögum. Við urðum því að fá gúmmíbátinn sem ætlaður var til þess að flytja farangur okkar af bátnum í land til að ferja okkur yfir ósinn. Við fundum ágætan tjaldstað á harðbala við gömlu fjárréttina undir Kleifunum að austan. Þó nokkur spölur var að bera farangurinn frá fjöruborðinu yfir votlendi að tjaldstað. Þar nutum við dyggrar aðstoðar bátsverja og annarra ungmenna sem höfðu hlaupið yfir Rauðskörð á svipuðum tíma og báturinn var að sigla frá Ólafsfirði. Öll eru þau íþróttafólk og starfa í Slysavarnafélagi Ólafsfjarðar og litu á þetta sem einskonar æfingu hjá sér.

Vegna hárra fjalla nýtur kvöldsólar í stuttan tíma í Héðinsfirði. Um klukkan átta var sólin sest þótt við værum austan til í firðinum og roðaði hún flallatoppana fram eftir kvöldi. Veðrið var yndislegt, stafalogn og hlýtt. Farið var í kvöldgöngu út að Vík. Ekki var farið lengra en að Víkuránni í það skiptið, en yfir hana verður að vaða. Sunnan árinnar er enn uppistandandi steinhúsið Syðri-Vík, sem svo var kallað þar sem síðustu ábúendur í Héðinsfirði bjuggu. Húsið hefur verið vel byggt og vandað á sínum tíma og gæti verið ágætis hús í dag hefði því verið haldið við.

Fyrsta daginn sem við vorum um kyrrt í Héðinsfirði, fórum við inn með vatni að austan. Veiðileyfi hafði verið keypt og skyldi nú rennt fyrir silung. Á litlum tanga þar sem lækur rann út í vatnið var kastað og óðara var fiskur á. Þarna fengust nokkrir ágætir silungar. Nær suðurenda vatnsins stendur bærinn Vatnsendi. Þar er gamla húsið nýuppgert og notað sem sumarbústaður af fólki frá Siglufirði sem eru afkomendur síðasta ábúendans þar, Þorvaldar Sigurðssonar. Skammt fyrir framan Vatnsenda er bærinn Grundarkot sem fór í eyði 1949, næstsíðastur bæja í Héðinsfirði. Veggir úr steinhúsi standa að nokkru leyti uppi. Út úr veggjunum mátti sjá togvíra sem notaðir höfðu verið í stað steypustyrktarjárns.

Eftir að nesti hafði verið snætt í grasigrónum hvammi sunnan við húsið, var haldið áfram í átt að Möðruvöllum, en nokkrir héldu niður að ánni til að kanna veiðina þar. Mikið votlendi er undir fjallshlíðinni þegar haldið er fram dalinn og þarf helst að ganga í fjallshlíðinni til að sleppa að nokkru við það. Við snerum því fjótt við og héldum út að vatni. Þar mættum við þeim sem höfðu verið við veiðar í ánni og höfðu meðferðis stóra og fallega silunga. Við fórum okkur hægt út með vatninu, renndum nokkrum sinnum fyrir silung, en nú var ekkert að hafa, sennilega hefur lognið verið of mikið, því að vatnið var alveg spegilslétt. Hann virtist ekki taka nema það væri smágráð á vatninu. Handan við vatnið blöstu skálarnar við í fjallinu. Norðan Ámárdals eru Beinaskál, Folaldaskál og Fýlaskálar. Þar norðan við er Hestskarðsskálin, sem við höfðum komið niður daginn áður.

Að lokinni máltíð í skini kvöldsólarinnar var lífið tekið með ró, sumir fóru í kvöldgöngu en aðrir sátu úti fyrir tjöldum og röbbuðu saman.

Næsta dag var farið út með ströndinni. Þegar komið var að Víkuránni varð að vaða hana. Ekki voru nema ein veiðistígvél með í ferðinni. Var þeim kastað yfir ána og skipst á að vaða í þeim, en aðrir voru með strigaskó og óðu í þeim. Komið var við í skýli Slysavarnafélagsins og eins og í mörgum öðrum slíkum skýlum var umgengni ekki upp á það besta. Gras var mikið á túninu í Vík svo það náði okkur í hnéhæð, en mest voru það sóleyjar og fíflar enda túnið löngu komið í órækt. Þegar komið er út fyrir Víkurhólana tekur við graslendi sem kallað er Víkurströnd. Þarna var stundaður engjaheyskapur frá Vík og hey oftast flutt á báti frá litlum vogi þar sem var þolanleg lending, norðan við flúðatanga, sem er sléttur og einkennilegur og nefndur er Hella. Á heimleiðinni fórum við fram á Víkurdalinn og skoðuðum hina sérkennilegu hóla með ótal smátjörnum á milli þeirra. Frá dalnum blasti við leiðin upp í Rauðskarð til Ólafsfjarðar, þangað sem við ætluðum að fara daginn eftir.

Fjórða daginn hélst sama blíðviðrið. Tjöldin voru tekin niður og öllum búnaði komið niður að sjó þar sem honum var skipað út í bátinn sem kom á tilsettum tíma. Þá var okkur ekkert að vanbúnaði að leggja á brattann. Eftir að komið var upp fyrir neðstu brekkuna var fremur auðveld ganga eftir stikaðri leið fram Víkurdalinn. Heldur þyngdist á fótinn þegar við sveigðum örlítið til hægri í átt að skarðinu. Þegar upp í Rauðskarðsskálina kom var samfelld fönn framundan allt upp í skarðið. Blankalogn var í skálinni og steikjandi sólarhiti, snjórinn hæfilega blautur og markaði í hann sporin. Er upp var komið blasti við Ytri-Árdalurinn og Kleifarnar fyrir mynni hans niður við sjóinn, Ólafsfjarðarmúlinn með veginum út að jarðgöngunum og nyrsti hluti kaupstaðarins. Við snæddum nestið okkar og nutum útsýnisins bæði til Héðinsfjarðar þaðan sem við vorum að koma og til Ólafsfjarðar. Við fikruðum okkur niður skriðurnar sem eru erfiðar yfirferðar, en gangan niður sléttan dalinn eftir fjárgötum var því mun auðveldari. Þessi ferð tók heldur lengri tíma en yfir Hestskarð eða tæpa fjóra tíma , en yfir Hestskarð vorum við þrjá og hálfan tíma. Þessar leiðir eru oftast farnar á styttri tíma, en við vorum ekkert að flýta okkur, fórum hægt og nutum góða veðursins.

Nú var þessi fjögurra daga ferð til Héðinsfjarðar á enda. Við höfðum notið kyrrðarinnar í eyðibyggð og teigað andblæ liðinna alda. Eftir að hafa farið í sund, heita potta og gufubað í Ólafsfirði, var snædd prýðisgóð lúða á hótelinu og gist í skólanum eins og í upphafi ferðar.

Höfundur er tæknifræðingur og starfar hjá Ísal.

Heimild: Mbl.is – http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=242672

——————————-

Á Botni Breðans

Í jólalesbók Morgunblaðsins 1956 er saga eftir Gunnar Gunnarsson, sem hann nefnir: “Á botni breðans.” Sagan fjallar um fjölskylduna í Grundarkoti í Héðinsfirði er líður að jólum. Höskuldur bóndi hafði farið sjóleiðis í kaupstaðarferð til Siglufjarðar, en Guðný húsfreyja bíður hans heima með börnin tvö, Árna litla 8 ára og Guðnýju litlu 4 ára. Ellefu dögum fyrir jól fennir bæinn í kaf. Höskuldur nær ekki heim fyrir aðfangadagskveld, en þannig lýsir Gunnar því: “Aðfangadagskvöldið bar upp á tilsettum tíma. Guðnýjarnar báðar og Árni komu sér fyrir í básnum hjá Skjöldu: Skelfing getur beljugrey verið dýrmæt skepna fullkominn er enginn mannfagnaður, þar sem ekki er einhver fjórfætlingur nálægur.”

Í 19 daga berjast móðir og börn fyrir lífi sínu, moka, moka, ný og ný þrep, styrkja þekjuna, sem var farin að svigna óhugnanlega. Guðný húsfreyja sagaði niður borðin, sem þau áttu og setti undir þekjuna. Útlitið var svart. Bunan í bæjarlæknum varð grennri og geljulegri með hverjum deginum sem leið. Stödd á þrettánda þrepinu þóttust þau sjá, að ljósið á lýsiskolunni aflitaðist. Þá var skammt í kraftaverkið: “Vetrardagurinn kom yfir þau eins og reiðarslag, þegar loksins harðfennisskánin rofnaði og hrundi á þau ofan. Þrepin urðu þá eftir allt saman ekki nema fimmtán. Sigurinn vannst á nýársdag og upp frá þeirri stundu vissu þau þrjú það öðrum mönnum fremur hvað heiti þessa dags hefur að geyma. Höskuldur bóndi hafði aftur á móti komið úr kaupstaðarferðinni eftir 20 daga og ekki fundið bæinn sinn. Hann skundar að næsta bæ, Vatnsenda að sækja hjálp, en í millitíðinni tekst heimafólkinu að grafa sig upp úr fönninni. Gunnar Gunnarsson yngri teiknaði frábæra mynd, sem birtist með grein föður hans í Jólalesbókinni, en þar skunda Höskuldur og Vatnsendamenn í átt til fólksins í Grundarkoti.

Þessi saga úr Héðinsfirði hefur sótt mjög á mig í vetur þegar snjórinn hefur vaxið hér dag frá degi og má nú svo heita hér á Akureyri, að kominn sé einn samfelldur Akureyrarjökull í hinn friðsæla bæ.

Langt er þó í land, að húsin hér á Akureyri sé að fenna í kaf, en snjóruðningstæki uppi á þökum hafa ekki sést á Akureyri fyrr en í vetur. Héðinsfjörður mun hafa farið í eyði um miðja öldina, u.þ.b. 1950. Nokkrar jarðir eru þó nýttar til sumardvalar og veiði er stunduð í Héðinsfjarðarvatni. Tveir fjallvegir liggja úr dalnum til Siglufjarðar, Hestsskarð og Hólsskarð. Um Fossabrekkur var gömul alfaraleið úr Héðinsfirði til Ólafsfjarðar.

Heimild:mbl.is – http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=183482