Sumarhús í Héðinsfirði eyðileggst í snjóflóði
Samkvæmt upplýsingum Þorsteins kom snjóflóðið úr skál í fjallinu fyrir ofan bæinn sem heitir Vatnsendaskál. Ekki er vitað um að snjóflóð hafi áður fallið á þessum stað, og almennt hefur verið talið að snjóflóð geti ekki borist fram úr Vatnsendaskálinni vegna þess hvað botn hennar er hallalítill.
Snjóflóð féll hins vegar á bæinn á Vatnsenda árið 1725, en bærinn stóð þá um tvö hundruð metrum sunnar en steinhúsið sem nú brotnaði niður. Í snjóflóðinu þá fórust að minnsta kosti fjórir, en eftir það var bærinn færður eitt hundrað metra til norðurs, og var búið á því bæjarstæði fram til 1936. Fyrir aldamótin 1900 mun snjóflóð hafa fallið rétt sunnan við þennan torfbæ, og sumar heimildir segja að skemmdir hafi orðið á húsinu. Þessi snjóflóð munu hafa átt upptök í hlíðinni sunnan við Vatnsendaskál, og norðurjaðar þeirra náð að húsunum, samkvæmt upplýsingum Þorsteins.
Þorvaldur Sigurðsson byggði nýtt steinhús á Vatnsenda árið 1936 og var bæjarstæðið þá aftur flutt 100 metra til norðurs á stað sem talinn var öruggari en gamli bæjarhóllinn. Afkomendur hans höfðu endurbyggt steinhúsið og gert það að sumarbústað og segir Þorsteinn að um tilfinnanlegt tjón sé að ræða, einkum vegna þeirra tilfinninga sem bundnar séu við staðinn
Flóðið sem féll á borholur hitaveitunnar á laugardag olli ekki miklu tjóni, enda húsin gerð til að þola flóð af þessu tagi, segir Árni Skarphéðinsson, vélstjóri hjá RARIK.
Heimild: mbl.is 23.01.2004
30 manna hópur í skoðunarferð í Héðinsfjörð
Lítið jarðrask vegna framkvæmdanna
Sverrir Sveinsson, fyrrv. rafveitustjóri á Siglufirði og sá sem fyrstur flutti frumvarp á þingi um gerð jarðganga milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar, sagði í samtali við Morgunblaðið, að ótrúlega lítið jarðrask yrði við þessar framkvæmdir. Og þó svo að eitthvert jarðrask yrði þá væri það nú svo að náttúran hefði hæfileika og tilhneigingu til að laga sig að aðstæðum, það hefði hún gert í árþúsundir og ætti eflaust eftir að gera lengi enn.Vegagerðarmenn tóku undir þessi orð Sverris, enda hefði allt kapp verið lagt á við hönnun jarðganga og gangamunna að fella mannvirkin á sem eðlilegastan hátt inn í umhverfið. Það var samdóma álit allra að ferðin hefði verið gagnleg og mjög fróðleg, ekki síst fyrir þá sem voru að koma þarna í fyrsta sinn.
Heimild: Mbl.is 25. ágúst 2001.
Héðinsfjörður verður ekki friðaður
,,Í firðinum er mjög sérstæður gróður sem er tegundaríkur og einkennandi fyrir snjóþyngri svæði landsins. Sambærilegan gróður er að finna í fjörðum austan Eyjafjarðar, í Njarðvík eystri, Borgarfirði eystri og Loðmundarfirði og á nokkrum stöðum á Vestfjörðum. Héðinsfjörður sker sig frá öðrum svæðum að því leyti að þar eru einkennistegundir snjóþungra svæða útbreiddar á litlu svæði og gróður gróskumikill,” segir í erindi Náttúrufræðistofnunar.
Landeigendur andvígir friðlýsingu
Landeigendur í Héðinsfirði lögðust eindregið gegn friðlýsingu. Í bréfi þeirra kom fram að hin raunverulega ástæða fyrir tillögu um friðlýsingu Héðinsfjarðar væri sú að með friðlýsingu færðist forræði í bygginga- og skipulagsmálum frá Siglufjarðarkaupstað til Náttúruverndarráðs og nýtingar- og eignarréttur landeigenda yrði þar með takmarkaður. Í þessu fælist miðstýringarárátta og virðingarleysi fyrir eignarrétti.Umhverfisráðuneytið sendi erindi Náttúrufræðistofnunar til Náttúruverndar ríkisins og Náttúruverndarráðs til umsagnar og auk þess óskaði ráðuneytið eftir tillögum að friðlýsingu.
“Með ósk ráðuneytisins um tillögu að friðlýsingu var ætlunin að kanna hvort Náttúruvernd ríkisins teldi ástæðu til þess að friðlýsa Héðinsfjörð og hvernig friðlýsingin ætti þá að vera. Með þessu hefur ráðuneytið ekki tekið neina ákvörðun enda fráleitt að friðlýsa svæði nema með samþykki landeigenda. Þar sem landeigendur leggjast allir gegn friðlýsingu Héðinsfjarðar mun ráðuneytið beina því til Náttúruverndar ríkisins að hún hætti við gerð tillögu að friðlýsingu Héðinsfjarðar,” segir í bréfi ráðuneytisins til Náttúrufræðistofnunar.