Héðinsfjörður er kenndur við landnámsmanninn Héðinn sem var bróðir Ólafs úr Ólafsfirði. Byggð í firðinum lagðist af árið 1951 er síðustu ábúendurnir á bænum Vík fluttu í burtu. Aðrar jarðir höfðu þá fyrir nokkru farið í auðn. Oftast nær voru fimm býli í byggð í þessum fallega en snjóþunga dal. Þekkt bæjarstæði í Héðinsfirði eru Vík, Vatnsendi, Grund / Grundarkot, Möðruvellir og Ámá. Vík var lengst af eitt helsta býlið í firðinum og það eina sem hafði lendingarskilyrði fyrir báta. Bænahús (hálfkirkja) var í Vík og mun hún hafa staðið eitthvað fram eftir 18.öldinni. Þar var einnig grafreitur allt til ársins 1760.
Skilyrði til búsetu í firðinum hafa alltaf verið erfið vegna snjóþunga og vegna þess að hér er mikil snjóflóðahætta. Samgöngur við nágrannahéruðin voru oft á tíðum mjög erfiðar, sérstaklega á vetrum, en þá var oft ófært bæði á sjó og landi. Vatnsendi var reistur á löndum hins forna býlis Grundar á 16. öld. Bærinn eyddist í snjóflóði 9. maí árið 1725 og með honum sex manneskjur. Árið 1830 fennti býlið Grundarkot í kaf með konu og tveimur börnum. Þau voru föst í bænum í 18 daga í gríðarmiklum bil og komust ekki út fyrr en konan náði að grafa göng upp úr snjónum. Mannskæð snjóflóð féllu síðast í firðinum árið 1919 en þá fórust tveir.
Saga Guðrúnar Þórarinsdóttur
Árin 1854-1859 bjuggu á Hvanndölum þau Einar Ásgrímsson og Guðrún Þórarinsdóttir. Á útmánuðum 1859 fór Einar á hákarlaskip eins og þá var títt. Annaðist Guðrún búskapinn á meðan. Í heimili voru Hólmfríður tökustúlka 9 ára og Ástríður og Guðlaug, dætur þeirra hjóna, 7 ára og 1 árs. Matur var nægur en eldiviður knappur. Guðrún var þunguð og átti örðugt með að klifra ofan fyrir bakka þar sem helst mátti finna eldivið. Gekk henni stöðugt verr að halda eldinum lifandi. Einn morguninn finnur hún engan neista í öskunni. Hún sá að hún yrði að komast að Vík. Ekki vildi hún fara Víkurbyrðu eins og hún var á sig komin, langt gengin með þriðja barn sitt. Ákveður hún að fara fjörur undir Hvanndalaskriðum sem voru sjaldan farnar á vetrum, en nú var norðaustanátt og ekki ferðafært. Tveimur dögum síðar gekk hann til sunnanáttar. Guðrún stóð upp seinni hluta nætur, vakti Hólmfríði og sagði henni áform sín. Bað hana að gæta Ástríðar vel. Sjálf hugðist hún taka Guðlaugu með sér. Hún bjó sig svo til ferðar að hún batt bandi aftan í pilsfaldinn og brá endum fram yfir axlirnar og batt þeim í faldinn að framan og bjó sér þannig til poka úr ysta pilsinu sem hún stakk barninu í. Með langa stöng í hönd gengur hún út í Skriður og eftir fjörum uns hún kemur að aðal forvaðanum. Sjór var alveg í berginu sem hún þurfti að vaða í mitti. Hún styður sig við stöngina. Þá lyftir lognaldan sér og færir bæði móður og barn á kaf. Guðrúnu tekst að standa af sér ölduna og stjaka sér áfram, þegar aldan lyftir sér næst hafði hún náð á grynnra vatn og var nú sloppin. Í Vík var henni tekið tveim höndum. Húsfreyjan, Helga Hallgrímsdóttir, hlúði að Guðlaugu litlu, gaf henni mjólk í pela og stakk undir sæng. Meðan Guðrún fékk þurr föt og hressingu bar Björn Skúlason bóndi mópoka á bátinn, tók járnpott og setti eld í hann og bjó svo um að lifði til Hvanndala. Þegar Guðrún ætlaði að taka Guðlaugu litlu með sér sagði Helga: “Ég ætla að geyma hana fyrir þig þangað til þú flytur að Ámá.” Og svo varð úr sem húsfreyja vildi.
Texti: vegagerdin.is