Marteinn Jónsson, framkvæmdastjóri þjónustusviðs Kaupfélags Skagfirðinga afhenti Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra 1.000.000 kr. að gjöf frá Sáttmála til sóknar, en að honum standa Kaupfélag Skagfirðinga og dótturfélög, Sveitarfélagið Skagafjörður og Akrahreppur. Þessa upphæð á að nota til að markaðssetja skólann.

Að ræðuhöldum loknum var Hátæknimenntasetrið vígt þegar Alain Reynvoet, Ingileif Oddsdóttir og Hjörtur P. Jónsson klipptu á borða að HAAS rými skólans.

Um er að ræða opnun á fyrsta hátæknimenntasetri í skóla á Íslandi. Nafni verknáms FNV verður breytt í Hátæknimenntasetur FNV til samræmis við hátæknimenntasetur erlendis (Haas Technical Education Centers). Í dag eru 52 skólar í Evrópu með hátæknimenntasetur og verður Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra fyrsti skólinn á Íslandi til að opna slíkt setur.

Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra hefur fjárfest í tækjabúnaði og þekkingu í því augnamiði að vera í fararbroddi menntastofnana við innleiðingu nýjustu CNC hátækni í iðnmenntun. Í gegnum samstarf FNV, Iðnvéla og HAAS Automation munu fyrirtæki hafa aðgang að mannafli með fulla þekkingu á þeirri háþróuðu tækni sem er notuð í iðnaði í dag.

Það er von þeirra sem að þessu verkefni standa að þessi opnun marki tímamót í sögu iðnmenntunar við FNV.