Háskólinn á Akureyri fagnar 25 ára afmæli sínu í ár. Afmælisins verður minnst með ýmsum hætti, meðal annars munu heimsfrægir vísindamenn heimsækja skólann og kynna þar rannsóknir sínar.

Háskólinn á Akureyri hóf starfsemi í húsnæði gamla Iðnskólans við Þingvallastræti árið 1987. Þá voru starfsmenn skólans fjórir talsins og nemendurnir 31. Nú 25 árum síðar er skólinn kominn í glæsilegt húsnæði við Norðurslóð. Þar starfa nú 200 manns og rúmlega 1500 nemendur eru þar við nám. Að sögn Þorsteins G. Gunnarssonar, fyrrverandi rektors skólans og formanns afmælisnefndar, er skólinn í stöðugri sókn en þaðan hafa nú brautskráðst hátt í 4000 kandídatar.

Stiklað á stóru í viðburðum ársins 2012:

  • Ljósmyndasamkeppni undir yfirskriftinni Líf og störf fólks í Háskólanum á Akureyri.
  • Opnaður verður afmælisvefur á vef háskólans með viðburðadagatali afmælisársins og stiklum og myndum úr sögu háskólans.
  • Safnað verður gömlum myndum sem tengjast starfsemi háskólans og þeim komið fyrir á afmælisvefnum. Leitað verður til notenda að þeir aðstoði við að nafngreina þá sem eru á myndunum og þar með eignast háskólinn heildstæðara myndasafn um sögu háskólans.
  • Gefið verður út dagatal og dreift inn á öll heimili á Akureyri. Dagatalið prýða myndir úr háskólanum og fróðleiksmolar um starfsemi háskólans.
  • Gefið verður út afmælisrit sem Bragi Guðmundsson, prófessor við kennaradeild, ritstýrir en auk hans mun fjöldi starfsmanna háskólans leggja til efni í ritið.
  • Boðið verður upp á öndvegisfyrirlestra þar sem heimsþekktir vísindamenn flytja opna fyrirlestra um rannsóknir sínar.
  • Fræðimenn við háskólann kynna ritverk sín á sérstakri dagskrá í samvinnu við Pennann-Eymundsson.
  • Ný stefna Háskólans á Akureyri verður kynnt snemma á afmælisárinu.
  • Útbúið hefur verið sérstakt merki sem mun prýða allar auglýsingar tengdar afmælisárinu og einnig allt kynningarefni sem gefið verður út á þessu ári. Í því er vísað til 25 ára afmæli háskólans.
  • Haldin verður vegleg hátíð að lokinni brautskráningu árið 2012 þar sem vænst er góðrar þátttöku frá afmælisárgöngum brautskráðra og  Góðvinum háskólans.
  • Háskólinn á Akureyri og Akureyrarbær, sem fagnar 150 ára afmæli í ár, munu standa saman að viðburði í ágústlok við Íslandsklukkuna.
  • Afmælisdag háskólans 5. september ber upp á miðvikudag og af því tilefni verður afmælishátíð og opið hús sunnudaginn 2. september.
  • Fullveldishátíð HA 1. desember verður veglegri en vanalega og á málþingi þennan dag verður kastljósinu beint að Háskólanum á Akureyri í fortíð, nútíð og framtíð. Verulegur hluti af dagskrá afmælisársins verður skipulagður af stúdentum, fræðasviðum og öðrum starfseiningum háskólans. Sá hluti dagskrárinnar verður kynntur síðar.

Hægt er að skoða sérstakan afmælisvef Háskólans hér.